Fréttir og tilkynningar

(21.06.2007) Þann 19. júní sl. var haldinn fundur í stjórn WorldFengs verkefnisins í Kaupmannahöfn en verkefnið er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenskra hesta en aðild að samtökunum eiga 17 lönd. Fundinn sátu Jens Iversen forseti FEIF frá Danmörku, Marko Mazeland sportleiðtogi FEIF frá Hollandi, Mike Edwards formaður skýrsluhaldsnefndar FEIF frá Bretlandi og Jón Baldur Lorange verkefnisstjóri WorldFengs frá Íslandi. Jens og Marko sátu fundinn í umboði Marlise Grimm ræktunarleiðtoga FEIF frá Þýskalandi sem á sæti í stjórn WorldFengs. Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur Bændasamtakanna gat ekki setið fundinn vegna anna við dómsstörf.

  Aðalfundarefnið var ákvörðun síðasta ársfundar FEIF í Glasgow í mars sl. að opna aðgang að WorldFeng fyrir alla félagsmenn FEIF, um 60.000, í þeim löndum sem eiga aðild að samtökunum.

Jens Iversen, forseti FEIF, sagði við Bændablaðið að loknum stjórnarfundinum "að WorldFengur væri verðmætasta og mikilvægasta verkfæri alþjóðasamtakanna til að auka hróður íslenska hestsins um allan heim. Á ársráðstefnu FEIF 2007 var stuðningur við það aðildarlönd FEIF skyldu greiða árgjald frá og með árinu 2008 til WorldFengs og stjórn WorldFengs vinnur nú að tillögu sem send verður öllum aðildarlöndum um hvernig eigi að reikna út og greiða árgjaldið. Endanleg tillaga verður lögð fyrir ársþing FEIF sem haldin verður á Íslandi í febrúar 2008. Markmiðið er að allir félagar í aðildarlöndum FEIF fái frían aðgang að WorldFeng". Jafnframt taldi Jens það mjög mikilvægt að þróa áfram tengsl á milli upplýsinga úr kynbóta- og íþróttasýningum og góðum áfanga sé þegar náð í því og sú þróun haldi áfram á þessu og næsta ári. Að síðustu sagði Jens að ákveðið hefði verið að tvö aðalþema ársfundar FEIF á næsta ári verði hestavelferð og WorldFengur. Á ársfund FEIF fyrr á þessu ári voru þátttakendur um 110 talsins frá 15 löndum.

Að sögn Jóns Baldurs verkefnisstjóra WorldFengs þá var þetta árangursríkur fundur og ljóst að ný stjórn FEIF hefur mikinn áhuga á að styrkja stöðu WorldFengs á allan hátt. Í dag eru um 6 þúsund áskrifendur að WorldFeng í um 20 löndum og ef spá um fjölgun áskrifenda stenst verður fjöldi áskrifenda orðinn 8-10 þúsund um næstu áramót. Í síðasta mánuði voru 42 þúsund heimsóknir í WorldFeng frá 34 löndum. Ný útgáfa af WorldFeng verður opnuð formlega í þessum mánuði sem á að ráða betur við þá byltingu sem orðin er í áskriftarfjölda auk þess að bjóða upp á aukna möguleika fyrir áskrifendur. (Bændablaðið)

(15.06.2007) Á tímabilinu 15. maí til 14. júní, var heildarfjöldi heimsókna í WorldFeng 41.964 talsins. Flestar heimsóknir komu frá Íslandi eða 57% en næstu lönd á eftir voru: Svíþjóð með 13% heimsókna, Danmörk 12,5%, Þýskaland 6,8%, Noregur 5,2%, Bandaríkin 1,2% og önnur lönd með undir 1% heimsókna. Met var slegið í fjölda heimsókna þann 13. júni sl. en þá voru heimsóknir alls 2.425 talsins en daginn áður hafði heimsóknarmetið verið slegið með 2.085 heimsóknum. Alls komu heimsóknir frá 34 löndum og vekur athygli að áskrifendur WorldFengs voru í löndum eins og Ivory strönd og Benín í Vestur-Afríku, Úkraníu, Saudi-Arabíu og Bermuda eyjum. Bakvið þessar 41.964 heimsóknir stóðu 8.110 einstaklingar á þessu mánaðartímabili. Vefráparar sem þessir einstaklingar notuðu voru Internet Explorer frá MicroSoft í miklum meirihluta eða 87% en Firefox vefráparann notuðu 1 af hverjum 10.

(02.06.2007) WorldFengur sækir á ný mið. Á nýjum stóðhestavef Eiðfaxa www.eidfaxi.is eru allar upplýsingar um hross sóttar beint í gagnagrunn WorldFengs með svonefndri vefþjónustu. Þegar notandi fær fram upplýsingaspjald um stóðhest er það í raun WorldFengur sem veitir upplýsingarnar sem koma fram á síðunni. WorldFengur er þannig rafræn upplýsingaveita stóðhestavefsins sem tryggir réttar upplýsingar í hvert sinn sem notendur stóðhestavefsins flétta upp síðu stóðhestsins. Á næstunni má búast við að fleiri vefir óski eftir álíka samstarfi en þetta er liður í að auka þjónustu við hrossaræktendur. Eftir sem áður þarf að vera áskrifandi að WorldFeng ef sækja á frekari upplýsingar því slík vefþjónusta veitir aðeins almennar upplýsingar ef svo mætti að orði komast. Aðrar vefþjónustur sem WorldFengur rekur er vefþjónusta fyrir VÍS og IceTest forritið sem er á vegum FEIF. Hestafréttir.is hafa einnig óskað eftir vefþjónustu sem vonandi kemst í loftið á næstu dögum.

(31.05.2007) Héraðssýningin á Gaddstaðaflötum hefur stimplað sig áþreyfanlega inn þetta sýningarárið eins þau fyrri. Þegar hæstu kynbótadómar eftir flokkum eru skoðaðir í ár þá raða hross dæmd á Gaddstaðaflotum sér efst í flesta flokka. Þannig er átta efstu hross í flokki 4. vetra hesta dæmd á Gaddstaðaflötum þar sem Dugur frá Þúfu er efstur með 8,25 í aðaleinkunn, Vænting frá Hruna er efst í flokki 4.vetra hryssa með 8,14 í aðaleinkunn, Finna frá Feti efst í flokki 5. vetra hryssna með 8,52 og í flokki 6. vetra hryssa er Hryðja frá Margrétarhofi næst efst með 8,29 í aðaleinkunn. Rétt er að taka fram að dómum er ekki lokið á Hellu og standa þeir nú yfir þegar þetta er ritað (kl. 20:15).

(17.05.2007) WorldFengur fékk 1.057 heimsóknir í gær miðað við 1.002 heimsóknir daginn áður. Teknar hafa verið upp nákvæmar mælingar á notkun WorldFengs hjá notendum til að unnt sé að fá upplýsingar sem gagnast geta til að bæta þjónustu við áskrifendur. (Sjá mynd hér að neðan: 1. mynd: Fjöldi heimsókna dagana 15. og 16.maí sl.

Um 37% þessara heimsókna koma frá Íslandi, 22% frá Þýskalandi, 14% frá Svíþjóð, 12% frá Danmörk og um 8% frá Noregi. Ekkert annað land nær meira en 3% af heimsóknarfjöldanum. Þá er áhugavert að skoða dreifingu áskrifenda um heiminn eða allt frá Santa Barbara í Bandaríkjunum í vestri, til Aucklands á Nýja-Sjálandi í austri, Mílanó á Ítalíu í suðri og Tromsö í Noregi í norðri. 29% heimsóknanna koma frá Reykjavík en þar er stærsti hópur áskrifenda. Þá eru 97% áskrifenda með Windows stýrikerfi, 2,7% með Macintosh og ekki nema 0,18% með Linux stýrikerfið.

(09.03.2007) Dr. Þorvaldur Árnason hefur nýlega endurbætt forrit sitt fyrir valparanir á dæmdum kynbótahrossum þannig að í dag reiknar forritið út líkurnar á hvaða lit afkvæmi valinna foreldra geta fengið. Forsenda útreikningsins er að sjálfsögðu litur foreldra og náinna ættingja eins og hann er skráður í WorldFeng. Þorvaldur gerði einnig tékk á litarskráningu í gagnagrunni WorldFengs þar sem samræmi í litarskráningum var kannað og skilaði hann skýrslu til Bændasamtakanna um hvar litarskráning gæti verið ábótavant þegar tillit var tekið til mögulegrar arfgerðar afkvæma í samræmi við litarskráningu foreldra og afkvæma. Vinna er hafin við að skoða skráningu í WorldFeng samkvæmt áðurnefndri skýrslu. Í fyrstu verður hægt að nálgast forrit Þorvaldar á heimasíðu hans en síðan verður forritið hluti af WorldFeng. Rétt er að vekja athygli á ýtarlegum skýringartexta Þorvaldar á heimasíðu hans um forritið fyrir valparanir. Rétt er að taka fram að allur texti í forriti og skýringartexta er á ensku í dag (verður þýtt á önnur mál í WorldFeng síðar).

(09.03.2007) Dregið hefur verið í áramótagetraun WorldFengs. WorldFengur dróg eftirtalda áskrifendur af handahófi úr hópi þeirra sem höfðu svarað öllum 7 spurningunum rétt. Vinningshafar: 1. vinningur. Ástundarhnakkurinn Winner+. Finnur Kristjánsson, félagsmaður í Félag hrossabænda, 2. vinningur. Bókin The Icelandic Horse (ensk útgáfa). Susanne Völker, félagi í IPZV (Þýskalandi). 3. vinningur. Ársáskrift að Eiðfaxi International. Jo Ann Brown, félagsmaður í USIHC (BNA), 4. vinningur. Hálfsársáskrift að Eiðfaxa. Þorbjörn Reynisson, félagi í Félag hrossabænda og loks 5. vinningur. Ársáskrift að WorldFeng (150 heimsóknir) Rúnar Geir Ólafsson, Íslandi. Vinningshafar eru vinsamlega beðnir að hafa samband við tölvudeild BÍ til að vitja vinninga.

(19.02.2007) Rúmlega 110 manns frá 15 löndum sóttu velheppnaðan ársfund FEIF sem haldinn var í Glasgow núna um helgina. Á fundinum var aðalfundur FEIF (Delegates' Assembly), árlegur formannafundur og árlegur fundur leiðtoga í ræktun, sporti, menntun og ungmennastarfi. Þá var fundur ritstjóra tímarita um íslenska hrossarækt. Á sameiginlegur fundi allra voru fluttir fyrirlestrar um ýmis málefni og þar flutti Elsa Albertsdóttur erindi sitt um tengsl kynbóta- og íþróttadóma. Einnig kynnti stjórn FEIF nýja framtíðarsýn og markmið samtakanna. Þá má geta þess að Jens Iversen, formaður FEIF, og Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs, kynntu á formannafundi FEIF sameiginlega yfirlýsingu þeirra þar sem óskað var eftir skoðunum formanna um framtíðarfyrirkomulag á áskrift að WorldFeng fyrir félaga FEIF. Einróma niðurstaðan var sú að allir félagar í FEIF fengju fría áskrift að WorldFeng, upprunaættbókinni, í gegnum aðildarfélög í hverju landi og tekið yrði upp árgjald til að standa straum að þessu. Einnig yrði opnaður takmarkaður opinn aðgangur að WorldFeng fyrir alla. Þetta yrði útfært frekar í viðræðum milli FEIF og BÍ. Á fundinum í Glasgow var einnig opnuð ný heimasíða fyrir FEIF, sjá www.feif.org.

(07.02.2007) Íslandshestafélagið í Kanada ákvað í síðustu viku að gerast meðlimur að samstarfinu um WorldFeng. Þar með hafa 16 Íslandshestafélög innan FEIF í eftirtöldum löndum ákveðið að taka í þjónustu sína upprunaættbók íslenska hestsins WorldFeng en það eru auk Íslands: Austurríki, Bandaríkin, Belgía, Bretland, Danmörk, Finnland, Frakkland, Færeyjar, Holland, Kanada, Ítalía, Lúxemborg, Noregur, Sviss, Svíþjóð og Þýskaland. Þar með hafa öll aðildarlönd FEIF gerst aðilar að WorldFeng að undanskildu nýjasta meðlim FEIF Slóveníu. Þá má geta þess að WorldFengur er kominn í samstarf við aðila í Ástralíu og Nýja-Sjálandi varðandi skráningar á hrossum í upprunaættbókina og einnig sér breska Íslandshestafélagið IHSGB um skráningar á hrossum fyrir Írland. IHSGB og Bændasamtökin gengu nýlega frá samkomulagi um útgáfu hestavegabréfa úr WorldFeng frá og með þessu ári. Sænska Íslandshestafélagið SIF stefna ennfremur að því að prenta öll hestavegabréf fyrir öll folöld fædd í Svíþjóð árið 2007 en 4ra manna sendinefnd frá SIF var stödd á Íslandi í vikunni þar sem gengið frá þessu og öðru varðandi vaxandi notkun Svía á WorldFeng í ættbókarvinnu þeirra.

(02.02.2007) Það hefur verið ákveðið að fresta drætti í áramótagetraun WorldFengs til 1. mars nk. Þetta er gert til að gefa fleiri áskrifendum kost á að taka þátt og í þessu sambandi má nefna að skráning félagsmanna í Danska Íslandshestafélaginu (DI) gat ekki hafist fyrr en í dag (2. febrúar 2007) af tæknilegum ástæðum. Þess má geta að aðeins um 300 áskrifendur hafa tekið þátt í getrauninni til þessa af um 4 þúsund sem er ótrúlega lítil þátttaka.

(06.01.2007) WorldFengur hefur aldrei verið vinsælli ef marka má fjölda heimsókna áskrifenda á síðustu dögum. Þannig skráðu sig 542 áskrifendur inn í gær en meðaltalsfjöldi innskráðra áskrifenda á dag síðasta mánuð var um 500. Flestir þessara áskrifenda heimsækir síðan WorldFeng oft á dag þessu til viðbótar. Þetta þýðir um 15.000 heimsóknir í hverjum mánuði og 180.000 heimsóknir áskrifenda yfir árið. Fréttasíða WorldFengs á þremur tungumálum er hins vegar opinn öllum en heimsóknartíðni á hana er ekki skráð. Miðað við að fjöldi áskrifenda WorldFengs eykst um tugi þúsunda nú á nýbyrjuðu ári með fríum aðgangi FEIF félaga í Íslandshestafélögum í Austurríki, Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Noregi, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi þá er ljóst að heimsóknarfjöldinn á eftir að aukast til muna. Rétt er að minna áskrifendur á að taka þátt í nýársgetraun WorldFengs en dregið verður úr réttum lausnum þann 1. febrúar nk.

(30.12.2006) Íslandshestafélagið í Bandaríkjunum og WorldFengur hafa náð samkomulagi um frían aðgang fyrir alla félagsmenn vegna ársins 2007 í The United States Icelandic Horse Congress (USIHC) sem eru búsettir í Bandaríkjunum. Stjórn félagsins hefur jafnframt boðið Jóni Baldri Lorange, verkefnisstjóra WF, á aðalfund félagsins í Dallas í Texas þann 24. mars á næsta ári til að halda kynningu á möguleikum WorldFengs. Í USIHC eru um 540 skráðir félagsmenn sem eru eigendur að um 3.000 íslenskum hestum. Fjöldi skráðra hrossa í WorldFeng eru í dag 3.834 og þar af eru 2.946 skráð á lífi.

(20.l2.2006) WorldFengur býður öllum áskrifendum upp á hátíðar- og nýársgetraun. Það verður dregið úr réttum lausnum 1. febrúar 2007. Verðlaun er vegleg að vanda en í aðalvinning er Ástundarhnakkurinn Winner+ að verðmæti tæplega 190.000 kr. og í önnur verðlaun er enska útgáfan af hinni vönduðu bók Íslenski hesturinn sem hefur slegið í gegn hjá unnendum íslenska hestsins um allan heim. Í aðra vinninga eru áskriftir að Eiðfaxa og Eiðfaxa International. Þar sem mjög margir nýjir áskrifendum fá í aðgang í gegnum aðildarfélög sín frá og með janúar á næsta ári var ákveðið að hafa getraunina á þessu tímabili. Svör við öllum spurningum má finna á www.worldfengur.com annað hvort á fréttasíðunum eða með leit í gagnagrunninum. Leitin að svörum reynir á kunnáttu í WorldFeng. Aðeins áskrifendur geta tekið þátt í getrauninni og fá aðeins eitt tækifæri til að senda inn svör. Til að taka þátt í getrauninni er smellt á jólamyndina á heimasíðu WorldFengs og dregur "WorldFengur" úr réttum svörum (handhófskennt valforrit) 1. febrúar 2007. Skemmtilega myndin hér til hliðar er tekin af heimasíðu danska Íslandshestafélagsins (www.islandshest.dk). Bændasamtök Íslands og FEIF óska áskrifendum gleðilegrar hátíðar.

(26.11.2006) Félagar í danska Íslandshestafélaginu, Dansk Islandshesteforening, fá frían aðgang að WorldFeng á næsta ári. Þetta var ákveðið á aðalfundi félagsins um helgina þegar gengið var að tilboði sem Bændasamtökin höfðu boðið félaginu til að gera þetta mögulegt. Danska Íslandshestafélagið er eitt af fjölmennustu Íslandshestafélögunum innan FEIF. Þetta þýðir að félagar í alls 10 aðildarlöndum FEIF fá frían aðgang að WorldFeng á næsta ári. Í raun þýðir þetta að langstærstur hluti félaga innan FEIF munu hafa frían aðgang að WorldFeng á næsta ári en félagar í FEIF eru í kringum 40 þúsund manns. Að sögn Jóns B Lorange, verkefnisstjóra WorldFengs, munu þessir samningar við Íslandshestafélögin styrkja fjármögnun WorldFengs verkefnisins samhliða jákvæðri útkomu úr viðræðum sem við höfum átt við Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra, um fjármögnun. "Í landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar hefur tekist að gera gangskör í meiri fagmennsku í íslenskri hrossarækt með þeim árangri að hún blómstrar í höndunum á þeim sem hana stunda og á hana trúa. WorldFengs verkefninu hefði aldrei verið ýtt úr vör á sínum tíma nema fyrir atbeina Guðna og fyrir það ber að þakka."

(21.11.2006) DNA greiningar frá Prokaria fyrirtækinu fyrir nokkur þúsund hross hafa verið lesnar inn í gagnagrunn WorldFengs samkvæmt samningi á milli Bændasamtaka Íslands og Prokaria. Jafnframt ber WorldFengur saman DNA greiningar við foreldra ef þær eru til staðar og birtir niðurstöður um hvort ætterni stenst eða ekki í samræmi við þær kröfur sem rannsóknarmenn hjá Prokaria fyrirtækinu setja. Prokaria hefur einnig beinan aðgang að DNA niðurstöðunum í WorldFeng til nánari skoðunar og rannsókna. Áskrifendur WorldFengs geta nú nálgast þessar niðurstöður DNA greiningana hjá hverju hrossi en rannsóknarstofur eru þeir einu sem geta séð greiningarnar sjálfar (erfðamörk). Þá er líklegt að Norðmenn semji einnig við Prokaria til að greina þau DNA sýni sem eru til staðar í Noregi og bíða greiningar. Á næstunni eru síðan samningaviðræður WorldFengs við rannsóknarstofur í Svíþjóð og Hollandi til að fá gögn frá þeim til að lesa inn í WorldFeng. Jafnhliða þarf að koma upp samstarfi á milli þessara rannsóknarstofa til að staðla öll vinnubrögð.

(10.11.2006) Nýtt alþjóðlegt kynbótamat hefur verið lesið inn í WorldFeng. Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur, kynnir nýja kynbótamatið á árlegu ráðstefnunni "Hrossaræktin" sem haldin verður á morgun.

(04.11.2006) Um 20 þúsund manns fá frían aðgang að WorldFeng á næsta ári. Íslandshestafélögin í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi hafa náð samkomulagi um frían aðgang sinna félagsmanna að WorldFeng á næsta ári. Einnig hafa sænsku félagið þegar ákveðið að endurnýja sína samninga um aðgang fyrir sína félagsmenn. Þetta þýðir að allir félagsmenn í 8 aðildarlöndum FEIF munu hafa frían aðgang að WorldFeng á næsta ári. Þetta eru Austurríki, Bretland, Holland, Ísland (þ.e. félagsmenn í Félagi hrossabænda og í hestamannafélaginu Herði), Noregur, Sviss, Svíþjóð og Þýskaland. Níunda landið Finnland hefur einnig samið um hagstæð áskriftarkjör fyrir sína félagsmenn sem kaupa áskrift í gegnum félagið. Þannig má segja að mikill meirihluti félagsmanna FEIF munu hafa frían aðgang að WorldFeng á árinu 2007 í gegnum félög sín í hverju landi. Að sögn Jóns Baldur Lorange, verkefnisstjóra WorldFengs, lýsir þetta vel þeim mikla áhuga sem hefur vaknað á WorldFeng um allan heim. "Áskrifendur WorldFengs í dag eru um 3.500 og á næsta ári fá vel yfir 20 þúsund manns rétt á að fá frían aðgang að upprunaættbókinni þ.e.a.s. ef þeir nýta sér þennan rétt. Það hefur hins vegar sýnt sig að einhvern tíma tekur að fá menn í gang og til að mynda er netnotkun í öðrum löndum ekki eins útbreidd og hér á landi. Mér hugnast betur að aðgangur að WorldFeng komi í gegnum félagsaðild, m.a. til að styrkja félögin, heldur en að opna aðgang að WorldFeng upp á gátt án áskriftar. Um þetta er vissulega skiptar skoðanir og ég veit að ný stjórn FEIF er á annarri skoðun og rétt að halda því til haga." Jón Baldur vildi einnig þakka þeim sem hafi starfað af miklum dugnaði og fórnfýsi við uppbyggingu og útbreiðslu WorldFengs á síðustu árum en án þeirra hefði ekki verið hægt að ná þeim áfanga sem nú hefði verið náð með fyrrgreindum samningum um frían aðgang félagsmanna FEIF. Þetta væru m.a. Kristín Halldórsdóttir í Þýskalandi, Kim Middel og Tim van den Akker í Hollandi, Reinhard Loidl í Austurríki, Mike Edwards og Fi Pugh í Bretlandi, hjónin Annegrete og Jens Otto Veje í Danmörku, Annette Knudsen í Danmörku, Barla Barandun í Sviss, Clive Philips í Skotlandi, Caryn Cantella í Bandaríkjunum, Inge Kringeland og Per Oddvar Rise í Noregi, Kati Ahola í Finnlandi, Per Anderz Finn og Göran Haagberg í Svíþjóð. "Á Íslandi hefur Félag hrossabænda, með Kristin Guðnason í broddi fylkingar, alltaf staðið fast við bakið á okkur alveg frá upphafi og er sá stuðningur ómetanlegur. Örugglega gleymi ég einhverjum í þessari upptalningu og bið ég viðkomandi afsökunar á því strax", sagði Jón Baldur að lokum.

(08.09.2006). Íslandshestafélagið í Sviss (Die Islandpferdevereinigung Schweiz) hefur ákveðið að kaupa aðgang að WorldFeng fyrir alla félagsmenn sína frá og með næstu áramótum. Fjöldi félaga í félaginu er tæplega 1.000. Á næstu mánuðum verður gengið frá skráningu þessara nýju áskrifenda WorldFengs þannig að hann verði tilbúinn þann 1. janúar 2007. Barla Barandun, ræktunarleiðtogi Svisslendinga, gekk frá samkomulaginu en Sviss var eitt af fyrstu löndunum sem sóttu um skráningaraðgang árið 2001 fyrir ættbókarfærð hross í Sviss. Svissneska félagið er fimmta félagið sem gengur frá landsaðgangi fyrir félagsmenn sína en áður höfðu Svíþjóð, Austurríki, Þýskaland og Noregur gengið frá samskonar samkomulagi. Auk þessa hafa allir félagsmenn í Félagi hrossabænda frían aðgang að WorldFeng. Að sögn Jóns B Lorange, verkefnisstjóra WorldFengs, eru samningar í gangi við tvö önnur Íslandshestafélög og skýrist það á næstu vikum hvaða lönd þetta eru. Áskrifendur WorldFengs eru í dag um 3.200 frá 20 löndum.

(23.08.2006) WorldFengur og Hestafréttir (www.hestafrettir.is) hafa gert samkomulag um aðgengi áskrifenda WorldFengs að myndböndum af stóðhestum sem Hestafrettir.is hafa yfir að ráða. Tengill á myndband fyrir stóðhestinn verður settur á upplýsingaspjaldið Myndir í WorldFeng þannig að nóg er að smella á hann til að spila myndbandið. Að sögn Daníels Ben Þorgeirssonar hjá Hestafrettir.is þá gera þeir ráð fyrir að bæta við á þriðja hundrað myndbanda á næstu 6 til 8 mánuðum í gagnagrunn Hestafrétta sem notendur WorldFengs hafa aðgang að. Jafnframt fagnaði Daníel samstarfinu við WorldFeng sem oft hafi verið honum hvatning í að kynna nýjungar í þjónustu við hestamenn í gegnum árin. Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs, telur samkomulagið við Hestafrettir.is bjóða upp á meiri og betri þjónustu við hestamenn með sem minnstum tilkostnaði enda útvegi Hestafrettir.is myndböndin og visti á öflugum miðlurum. "Eina sem við gerum er að nýta okkur þessa vinnu áskrifendum okkar til hagsbóta". Þá stórbæti þetta aðgengi og notagildi myndabanda sem eigendur stóðhesta láti útbúa fyrir Hestafrettir.is þar sem rúmlega 3 þúsundir áskrifenda WorldFengs geti nú skoðað þau með auðveldum hætti þegar aðrar upplýsingar um hross eru skoðaðar í upprunaættbókinni.

(07.07.2006) FEIF Youth Cup 2006 var haldið 15.-23. júlí nk. í St. Radegund í Austurríki. Þátttakendur komu frá öllum löndum innan FEIF þ.á.m. frá Íslandi. WorldFengur var einn af styrktaraðilum mótsins. Dómarar og þjálfarar fengu vandaðar AIGLE úlpur frá Ástund hf. og allir keppendur fengu ókeypis áskrift að www.worldfengur.com í nokkra mánuði. WorldFengur óskar öllum keppendum velfarnaðar á mótinu.

(06.07.2006) Velheppnuðu Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum er lokið. Íslenski hesturinn var óumdeildur sigurvegari eins og á fyrri Landsmótum og þúsundir Landsmótsgesta frá fjölmörgum löndum nutu afburða kynbótahrossa alla mótsdagana. WorldFengur var á staðnum á Íslenska hestatorginu 2006 í félagi með Félagi hrossabænda, Félagi tamningamanna, Hólaskóla og Sögusetri íslenska hestsins. Þetta framtak tókst með ágætum og var Hestatorgið mjög vel sótt og sérstaklega vöktu fræðsuerindin verðskulduga athygli. Guðni Ágústsson opnaði Hestatorgið með ræðu og mæltist vel að vanda og sagði m.a. "að WorldFengur væri hið alsjáandi auga Óðins í ræktun íslenska hestsins um víða veröld". Hér á eftir verða taldir aðeins upp nokkrir af þeim Landsmótsgestum sem sýndu okkur þann heiður að heilsa upp á okkur hjá WorldFengur: Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, Martina Gates (Bandaríkjunum), TöltNews, Per Anderz Finn (Svíþjóð), ræktunarleiðtogi FEIF, Marko Mazeland (Hollandi), íþróttaleiðtogi FEIF, Tone Kolnes (Noregi), forseti FEIF, Per Kolnes (Noregi), í dómaranefnd FEIF, Reinhard Loidl (Austurríki), skrásetjari WF, Halla Eygló Sveinsdóttir, héraðsráðunautur, Guðmundur Jóhannesson, héraðsráðunautur, Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjóri BSE, Jens Iversen (Danmörku), gjaldkeri FEIF, Annette Knudsen (Danmörk), skrásetjari WF, Tim van den Akker (Hollandi), skrásetjari WF, Karen Bronzman (Bandaríkjunum), Johannes Hoyos (Austurríki), dr. Ferdinard Smith (Þýskalandi), Hákon Sigurgrímsson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Oddur Hafsteinsson, rekstrarstjóri Þekkingar, dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Hallgrímur S Sveinsson, í dómaranefnd FEIF, og Stan Hirson (Bandaríkjunum), Hestakaup.com.

(26.06.2006) Íslenska hestatorgið 2006 er samstarfsverkefni Félags hrossabænda, Félags tamningamanna, Hólaskóla, Söguseturs íslenska hestsins og WorldFengs. Með samstarfinu er unnið saman að heildstæðum kynningum á íslenska hestakyninu.
Íslenska hestatorgið 2006 er í markaðstjaldinu á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum
Spennandi dagskrá verður í boði alla dagana frá því að torgið opnar. Þá verður bein útsending af keppnisvellinum og alltaf heitt á könnunni.
Dagskrá:
Fimmtudagur:
Kl. 15:00 Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, opnar Íslenska hestatorgið 2006. Undirritun samkomulags um verkefnið Íslenska hestatorgið.

Föstudagur, 30. júní
Kl. 12:00 Atli Guðmundsson: Mín þjálfunarleið (fyrirlestur)
Kl. 18:30 Olil Amble: Feðgarnir Svaki og Suðri (fyrirlestur)

Laugardagur, 1. júlí
Kl. 12:00 Þorvaldur Árni Þorvaldsson: Léttleiki og útgeislun (fyrirlestur)
Kl. 12:00-16:00 Þórdís Jónsdóttir og Hannes Friðriksson söðlasmiðir frá Hestinum Skagfjörð sýna réttu handtökin við smíði hnakka.
Kl. 18:15 Gísli B. Björnsson, annar höfunda bókarinnar, Íslenski hesturinn verður til viðtals og áritar bók sína í bás Söguseturs íslenska hestsins.

Sunnudagur, 2. júlí:
Kl. 12:00 Barnastund: Dofri Hermannsson leikari les sögu fyrir ungu kynslóðina.

Fyrirlestrarnir þrír verða fluttir á ensku.
Ef breytingar verða á dagskrá eru þær tilkynntar á stórri töflu í miðju Íslenska hestatorgsins 2006.

(08.06.2006) Baráttan á milli efstu hrossa í öllum flokkum er mikil þessa dagana á hinum mörgu kynbótasýningum sem eru í gangi víða um heim. Breytingar frá 31. maí (sjá frétt hér að neðan) eru helst þessar. Kraftur frá Efri-Þverá stimplar sig af krafti inn sem kynbótahross en hann er þessa stundina efstur í flokki 4 vetra stóðhesta með 8,37 í aðaleinkunn sem hann fékk á Hérðassýningunni í Glaðheimum og Glotti frá Sveinatungu (8,19) hefur færst niður í þriðja sætið á eftir Krák frá Blesastöðum 1A (8,24). Þjóð frá Skagaströnd er með sterka stöðu enn í flokki 4 vetra hryssna. Dalvar frá Auðholtshjáleigu trónir enn eftur í flokki 5 vetra stóðhesta (Þess má geta í framhjáhlaupi að árið 2005 endaði Dalvar einnig efstur í flokki 4 vetra hesta) en fast á hæla honum kemur Álfasteinn frá Selfossi með 8,44 í aðaleinkunn og munir þar aðeins 0,01 í einkunn á milli þessara gæðinga. Það þarf mikið að koma til að stugga við Dögg frá Breiðholti, Gbr. úr efsta sætinu í flokki 5 vetra hryssna en hún fékk 8,56 í aðaleinkunn á Héraðssýningunni á Sörlastöðum. Hross sýnd á Íslandi ná ekki að einangra öll efstu sætin lengur því Ísar frá Keldudal er efstur í flokki 6 vetra stóðhesta með 8,61 í aðaleinkunn sem hann hlaut á kynbótasýningunni í Strömsholm í Svíþjóð.

(31.05.2006) Kynbótasýningar eru hafnar í flestum aðildarlöndum FEIF og hafa alls 24 kynbótasýningar í 7 löndum verið skráðar inn í WorldFeng. Flestar kynbótasýningar hafa verið haldnar í Þýskalandi, eða 9 talsins, en síðan koma Íslendingar með 7 sýningar. Upplýsingar um alla kynbótadóma má finna í WorldFeng og þegar litið er hæstu kynbótadóma á þessu ári þá stendur Glotti frá Sveinatungu efstur í 4 vetra flokki stóðhesta með 8,19 í aðaleinkunn en hann var sýndur á Héraðssýningunni á Sörlastöðum. Orrasonurinn Álfur frá Selfossi fylgir fast í kjölfarið með 8,10 í aðaleinkunn sem hann fékk á sýningunni á Gaddstaðaflötum og sömu einkunn fékk Tór frá Auðholtshjáleigu á Sörlastaðasýningunni. Hryssan með hátíðlega nafnið Þjóð frá Skagaströnd undan Orra frá Þúfu trónir efst í flokki 4 vetra hryssna með 8,27 í aðaleinkunn sem hún fékk á Héraðssýningunni á Gaddstaðaflötum sem stendur yfir þessa dagana. Dalvar frá Auðholtshjáleigu hefur forystu í 5 vetra flokki stóðhesta með 8,45 í aðaleinkunn og hækkar sig á milli ára úr 8,36 sem hann hlaut 4 vetra í Kópavogi. Í flokki 5 vetra hryssna er Dögg frá Breiðholti, Gbr. efst með 8,56 en hún er undan Orra frá Þúfu.

(26.05.2006) Að undanförnu hafa notendur haft samband vegna tíðra sambandsslita við WorldFeng. Tölvudeild Bændasamtakanna hefur óskað eftir skýringum frá Skýrr hf. sem hýsir WorldFeng til að leita leiða til að tryggja öruggara og stöðugra samband. Þess má geta að mikið álag er á kerfinu þessar vikurnar vegna fjölda kynbótasýninga víða um heim sem allar eru keyrðar beint í gegnum WorldFeng. Þá má nefna að undirbúningur vegna íþróttakeppna á vegum LH er í fullum gangi sem eykur álagið enn frekar. Þessu til viðbótar er notendum WorldFengs að fjölga ört þessar vikurnar og eru nú að meðaltali daglegur fjöldi notenda um 600. Nú er beðið eftir nákvæmari álagsprófunum frá Skýrr til að geta metið hvort og þá hvernig mæta á þessari auknu notkun. Fyrstu upplýsingar frá Skýrr gefa þó til kynna að þeir miðlarar sem WorldFengur er keyrður á eigi að anna öllu þessa aukna álagi.Vegna þessara truflana á sambandinu við WorldFeng er notendum sem hafa orðið fyrir óþægindum bent á að senda tölvupóst á netfangið tolvudeild@bondi.is til að fá leiðréttingu á heimsóknarfjölda.

(19.05.2006) Íslandshestafélögin í Austurríki og Þýskalandi hafa ákveðið að fara að dæmi Svía og Norðmanna og hafa gengið frá samkomulagi um aðgang allra sinna félagsmanna að WorldFeng. Að sögn Jóns Baldurs Lorange, verkefnisstjóra WorldFengs, eru þetta tímamót í söfnun áskrifenda að upprunaættbókinni og viðurkenning þessara félaga á starfi allra þeirra sem unnið hafa baki brotnu í mörgum löndum á undanförnum árum að uppbyggingu á WorldFeng. "Það verði ánægjulegt verkefni á næstunni að gera ráðstafanir til þess að WorldFengur anni því aukna álagi sem óhjákvæmilega fylgir því að fá nýja áskrifendur sem verða taldir í þúsundum í þessum löndum."

(17.05.2006) Sjálfvirkt viðvörunarkerfi hjá Skýrr hf., sem hýsir WorldFeng, fór af stað seinni partinn í dag og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út. Vegna þessa slökknaði á kælikerfum hjá Skýrr sem svo aftur varð til þess að miðlarinn sem www.worldfengur.com er á keyrði sig sjálfkrafa niður og fór ekki í gang aftur fyrr en um 30 mínútum síðan. Eitthvað hefur verið um að notendur hafa kvartað yfir hægagangi í kerfinu og hefur verið óskað eftir því við Skýrr hf. að þeir geri úttekt á álaginu næstu daga og síðan verður metið hvort bregðast þurfi við með einhverjum hætti.

(10.04.2006) Norska Íslandshestafélagið hafa ákveðið að sækja um aðgang fyrir alla sína félagsmenn frá og með næsta ári. Þetta var samþykkt á aðalfundi þeirra fyrir nokkrum dögum. Þá hafa tvö fjölmenn Íslandshestafélög ákveðið að opna aðgang að WorldFeng fyrir alla félagsmenn en sænska félagið ákvað að gera þetta strax á þessum ári sbr. frétt hér að neðan. Það er því ljóst að áskrifendur WorldFengs verða um 10.000 frá og með næstu áramótum.

(21.03.2006) Svíarnir koma! Í næstu viku sækja fulltrúar Sænska Íslandshestafélagsins (SIF) okkur heim. Tilgangur ferðarinnar er að læra á alla möguleika WorldFengs kerfisins til að unnt sé að nýta forritið betur fyrir félagsmenn SIF. Með í ferðinni verða báðir skrásetjarar WorldFengs í Svíþjóð, ræktunarleiðtogi Svía og sérfræðingur þeirra í tölvumálum.

(17.03.2006) Hestamannafélagið Hörður hefur náð samningum um aðgang allra félagsmenn sína að WorldFeng. Félagsmenn í Herði eru um 600 talsins. Sótt er um aðgang í gegnum heimasíðu Harðar www.hordur.is.

(24.02.2006) Sænska Íslandshestafélagið (SIF) hefur gert samning við www.worldfengur.com um aðgang fyrir félagsmenn sína að WorldFeng frá og með 1. mars 2006 til 28. febrúar 2007. Félagsmenn í SIF eru í dag um 6.500. Þetta er sambærilegur samningur og hefur verið í gildi við Félag hrossabænda hér á Íslandi. Að sögn Jóns Baldurs Lorange, verkefnisstjóra, býðst öðrum aðildarfélögum FEIF sambærilegir samningar fyrir félagsmenn sína þar með talin félög innan Landssambands hestamannafélaga. Jafnframt hefur verið gert samkomulag við Íslandshestafélögin í Danmörku, Finnlandi, Sviss og Þýskalandi um hagstæð áskriftarkjör fyrir meðlimi þessara félaga þó þeir gangi ekki eins langt og samningurinn við SIF. Áskrifendur WorldFengs um áramót voru um 1.800 en virkir notendur í dag eru komnir yfir 2.000 og markið er sett á 3.500 áskrifendur fyrir lok ársins.

(12.02.2006) Velheppnaðri árlegri 3ja daga ráðstefnu FEIF lauk í dag í Amsterdam en þetta er í annað sinn hún er haldinn með þessu formi. Á síðasta ári var hún haldin í Kaupmannahöfn og þótti takast það vel að ákveðið var að festa þetta fundarform í sessi. Rúmlega 100 manns tóku þátt í ráðstefnunni frá 14 af 18 aðildarlöndum FEIF og kom um einn tugur þátttakenda frá Íslandi. Hin vel þekkti hrossaræktandi Bjarni Þorkelsson flutti magnað erindi um ræktun íslenska hestsins á ráðstefnunni og tilkynnti Tone Kolnes, forseti FEIF, að erindið verði birt á heimasíðu FEIF (www.feif.org). Helsta þema ráðstefnunnar að þessu sinni voru ræktunarmarkmið íslenska hestsins og önnur helstu umræðuefni voru heimsmeistaramót íslenska hestsins og WorldFengur. Fastanefndir störfuðu allan tímann á ráðstefnunni þ.e. fundur ræktunarleiðtoga, fundur um íþróttakeppnir, fundur um menntamál, fundur um ungliðastarf og fundur ritstjóra, en þann fund sat enginn að þessu sinni frá Íslandi.

(22.12.2005)

1. Ástund-Super+ hnakkur með öllu frá Ástund að andvirði kr. 192.900,
Sandra Maria Marin, Akureyri.

2. Epson ljósmyndaprentari með fylgihlutum að andvirði kr. 15.000,- frá Tæknival.
Ingi Rafn Jónsson, Reykjavík

3. Ársáskrift að búnaðarblaðinu Frey
Þórður Ingólfsson, Reykjavík

4-5. Ársáskrift að WorldFeng með 150 heimsóknum.
Timo Kaarakainen, Finnlandi
Sigurhans Jónsson, Egilsstöðum

6. -11. WorldFengs bakpoki og bolur.
Susanne Kreuter, Þýskalandi
Anike Schneppe, Þýskalandi
Pétur Vilhjálmsson, Bandaríkjunum
Kirsten Hofmann, Þýskalandi
Sæmundur Runólfsson, Reykjavík

Gleðilega hátíð.

(24.11.2005) Það er rétt að komi fram varðandi valparanir að forritið virkar aðeins fyrir paranir á sýndum hrossum. Kynbótaspá fyrir ósýnd hross (flest með fá afkvæmi) er svo óörugg að upplýsingarnar eru nær gagnlausar nema þá fyrir skyldleikaræktarstuðulinn. Erlendis nota menn aðeins sýnda stóðhesta en vissulega tíðkast annað á Íslandi og því verður þetta tekið til skoðunar þegar tími vinnst til. (Þorvaldur Árnason).

(15.11.2005) Nú er hægt að gera valparanir og fá fram skyldleikaræktarstuðul og kynbótamat væntanlegs afkvæmis með sérstöku forriti sem dr. Þorvaldur Árnason hefur smíðað og byggir á gögnum sem notuð voru til útreiknings á alþjóðlega kynbótamatinu. Forritið er vistað á heimasíðu Þorvaldur og er tengill á það hér til hliðar (Valparanir). Slá skal inn fæðingarnúmer beggja foreldra (FEIF-ID númer og ekki gleyma landskóðanum). F stuðullinn er er fjólublár ef hann fer yfir 5% og blóðrauður ef hann fer yfir 7% til viðvörunar. Góða skemmtun! /JBL

(14.11.2005) Niðurstöður fyrsta alþjóðlega kynbótamatsins voru kynntar af Guðlaugi Antonssyni, landsráðunaut í hrossarækt, á hinni árlegu ráðstefnu Hrossaræktin, sem haldin var á laugardaginn á Hótel Sögu. Þetta eru merk tímamót í sögu íslenskrar hrossaræktar og samstarfsins um WorldFeng en því var m.a. hrint af stað til að sækja að þessu markmiði. Hross frá 11 löndum eru með í þessum útreikningi en þau eru: Austurríki, Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Finnland, Holland, Ísland, Noregur, Sviss, Svíþjóð og Þýskaland. Dr. Þorvaldur Árnason hefur tekið saman ýtarlegar upplýsingar um niðurstöður kynbótamasins og má nálgast skrif hans hér til hliðar (Alþjóðlegt kynbótamat). Þar kemur m.a. fram að alls voru 190,089 hross sem útreikningurinn byggðist á að þessu sinni. Þar af voru 25,327 hross með dóma sem skiptust þannig milli landa; Ísland 20,196, Svíþjóð 2,108, Danmörk 1,678, Noregur 488, Þýskaland 466, Finnland 137, Holland 99, Bandaríkin 57, Austurríki 52, Bretland 24 og Sviss 23 hross. Íslenskir dómar eru teknir með frá 1961, danskir dómar frá 1976, sænskir dómar frá 1982, norskir dómar frá 1994 og finnskir dómar frá 1997. Dómar frá hinum nýju löndunum eru frá og með 2001. Niðurstöðurnar hafa verið lesnar inn í gagnagrunn WorldFengs. /JBL

(19.10.2005) Dr. Þorvaldur Árnason í Svíþjóð vinnur þessa dagana að útreikningi á fyrsta alþjóðlega kynbótamatinu sem byggt er á gagnagrunni WorldFengs frá því í byrjun október mánuði sl. Í WorldFeng í dag er kynbótamat sem reiknað var fyrir öll hross á Norðurlöndum en í alþjóðlega kynbótamatinu sem verður birt síðar í mánuðinum þá bætast við hross frá eftirtöldum löndum: Austurríki, Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Sviss og Þýskalandi. Aðildarfélög FEIF í þessum löndum hafa dæmt hross samkvæmt FIZO reglum FEIF undanfarin ár og kynbótadómar eru skráðir í WorldFeng. Jafnframt hefur verið lögð mikil vinna í skráningu á hrossum frá þessum löndum í gagnagrunninn. Allt þetta er forsenda þess að nú opnast möguleiki á að reikna alþjóðlegt kynbótamat sem var einmitt eitt af aðalmarkmiðum WorldFengs í upphafi.

(15.09.2005) Félagar í Félagi hrossabænda fá 50% afslátt af mánaðargjaldi fyrir tengil á heimasíðu ræktanda í WorldFeng. Mánaðargjald er því aðeins kr. 1.750 eða kr. 1.406 án vsk. Ef félagar skrá sig fyrir 1. október fá þeir til viðbótar 20% afsláttin til áramóta, sem í boði var, þ.e. 70% afslátt fyrstu mánuðina! Mjög mikill áhugi hefur verið á skráningu á heimasíðutenglum bæði hérlendis og erlendis eftir að farið var að bjóða upp á þessa þjónustu enda opnast hér einstakt tækifæri fyrir ræktendur að koma á framfæri hrossarækt sinni. Pöntunarform.

(12.09.2005) Nýjungar í WorldFeng. Áskrifendur WorldFengs geta nú sjálfir valið á milli sjö tungumála beint í kerfinu þ.e. íslensku, dönsku, ensku, finnsku, hollensku, norsku og þýsku. Þetta gera þeir með því að smella einfaldlega á viðkomandi þjóðfána með músinni undir valliðnum Tungumál.

Þá er ræktendum boðið upp á að kaupa tengil á heimasíðu sína í WorldFeng en áhugasamir ræktendur hafa óskað eftir þessari þjónustu í all nokkurn tíma. Tákn fyrir heimasíðu ræktandans kemur þá upp við öll hross sem viðkomandi er skráður ræktandi eða eigandi að. Heimasíða ræktunarbúsins opnast í nýjum glugga þegar smellt er á heimasíðutáknið. Með þessu móti er auðveldað til muna að komast í samband við ræktendur og eigendur þeirra hrossa sem áskrifendur eru að skoða hverju sinni.

Mánaðargjald fyrir þessa þjónustu er kr. 3.500. Þeir sem skrá sig fyrir 1. október nk. fá 20% afslátt af mánaðargjaldi fram að áramótum og fría skráningu fyrir september mánuð! Upplýsingar um nafn, heimili, kennitölu og greiðslukortaupplýsingar skal senda í tölvupósti á worldfengur@worldfengur.com. Einnig má símsenda upplýsingarnar á 562-5177 eða hringja í tölvudeild í síma 563-0300.

Þá má geta þess að á næstu vikum verður bætt inn í WorldFeng um 300 ljósmyndum af helstu kynbótahrossum nýliðins sýningarárs en flestar þessara ljósmynda tók Eiríkur Jónsson að vanda

(08.07.2005) Samkvæmt upplýsingum í WorldFeng eru hæstu hross í öllum flokkum sem hér segir miðað við stöðuna í dag. Öll hrossin komu til sýninga annað hvort í Kópavogi eða Hafnarfirði að undanskilinni Næpu vom Kronshof sem sýnd var í Þýskalandi og fædd þar: 4. vetra stóðhestar: Dalvar frá Auðsholtshjáleigu með 8,36 í aðaleinkunn. Héraðssýning í Kópavogi. 4. vetra hryssur: Dögg frá Breiðholti og Hríma frá Dallandi með 8,26 í aðaleinkunn. Báðar sýndar á Sörlastöðum í Hafnarfirði. 5. vetra stóðhestar: Fursti frá Stóra-Hofi með 8,46 í aðaleinkunn. Sýndur í Kópavogi. 5. vetra hryssur: Sefja frá Úlfljótsvatni með 8,47 í aðaleinkunn. (Næsta hryssa með 8,35). Sýnd í Kópavogi. 6. vetra stóðhestar og eldri: Númi frá Þóroddsstöðum með 8,66 í aðaleinkunn. (Næsti hestur með 8,55). Sýndur á Sörlastöðum í Hafnarfirði. Sjá nánar frétt frá 2. júní hér að neðan. 6. vetra hryssur: Maístjarna frá Útnyrðingsstöðum með 8,45 í aðaleinkunn. Sýnd á Sörlastöðum í Hafnarfirði. 7. vetra hryssur og eldri: Næpa vom Kronshof (DE1997209444) með 8,5 í aðaleinkunn. Sýning: Dritteltreffen Nord auf Störtal - WM Qualifikation í Þýskalandi.

(02.06.2005) Kynbótasýningar hrossa hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hafa hundruð hrossa verið sýnd víðsvegar um land. Sýningar standa fram yfir miðjan júní, en sú síðasta fer fram í Kópavogi líkt og undanfarin ár. Nú þegar hefur fjöldi hrossa hlotið góða dóma og einna mesta athygli hefur vakið dómur Núma frá Þóroddsstöðum sem sýndur var í Hafnarfirði. Númi, sem er 12 vetra gamall, var síðast sýndur sem einstaklingur árið 2000 og hlaut þá í aðaleinkunn 8,54, auk þess sem hann hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti á Hellu í fyrra. Að þessu sinni hlaut Númi 8,66 í aðaleinkunn, með 8,48 fyrir sköpulag og 8,78 fyrir hæfileika. Hann hlaut m.a. 9,5 fyrir skeið og fet og hækkaði upp í 9,0 fyrir háls og herðar. Númi er undan Svarti frá Unalæk og Glímu frá Laugarvatni og hefur hann verið í eigu hrossaræktarsamtaka Suðurlands og Eyfirðinga- og Þingeyinga undanfarin ár, en ræktandi hans er Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum. Númi var nýverið seldur til Danmerkur og fer líklega utan fljótlega og má leiða líkum að því að hann verði fulltrúi Íslands í elsta flokki stóðhesta á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð síðar í sumar. Sýnandi Núma var Daníel Jónsson, en hann varð einmitt sigurvegari í sama flokki á síðasta heimsmeistaramóti á gæðingnum Sjóla frá Dalbæ sem hlaut einnig 8,66 í aðaleinkunn, meteinkunn í þeim flokki, sem nú hefur verið jöfnuð af Núma.
Á kynbótasýningunni Hafnarfirði komu einnig fram góðar ungar hryssur sem gaman verður að fylgjast með, auk þess sem athyglisverðir einstaklingar hafa komið fram á öllum sýningum vorsins eins og venja er. Í sumar verður haldið fjórðungsmót Vestlendinga á Kaldármelum og kemur í ljós hvaða hross hafa unnið sér inn þátttökurétt þar þegar kynbótasýningunum lýkur í júní. Nú þegar hafa góð hross í eigu Vestlendinga komið fram, s.s. Sólon frá Skáney sem hlaut 8,39 í aðaleinkunn fyrir skemmstu og verður spennandi að sjá hverju Vestlendingar tefla fram á mótinu í sumar.
Þeir sem vilja fylgjast með kynbótasýningum og hafa aðgang að öllum dómum um leið og þeir eru skráðir inn í dómpalli geta gert það í gegnum gagnabankann Worldfeng á slóðinni www.worldfengur.com. Félagar í Félagi hrossabænda fá ókeypis aðgang að gagnagrunninum, en aðrir geta keypt áskrift hjá Bændasamtökunum þar sem allar nánari upplýsingar fást. Þá má nefna þann skemmtilega möguleika að fá kynbótadóminn sendan í sms skilaboðin WF fæðingarnúmer hrossins í númerið 1900. Þjónustan kostar kr. 79./HGG

(30.05.2005) Helgina 20.-22. maí sl. var haldinn fundur erlendra skrásetjara WorldFengs í Stokkhólmi í Svíþjóð. Bændasamtök Íslands stóðu að fundinum með aðstoð Per Anderz Finn, ræktunarleiðtoga FEIF, sem útvegaði fundarstað í höfuðstöðvum Agria fyrirtækisins. Alls sátu 16 manns fundinn frá 10 löndum (sjá mynd). Á fundinum fór Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs, yfir allra helstu möguleika forritsins og rakti helstu skráningarreglur. Að sögn Jóns Baldurs og Per Anderz þá var var fundurinn hinn ánægjulegasti og var árangursríkur. Það var fagnaðarefni að sjá fulltrúa frá Færeyjum sjá sér fært að mæta en þeir ætla sér að skrá öll sín hross í WorldFeng. Skrásetjurum var skipt upp í tvo vinnuhópa sem skiluðu niðurstöðum fyrir sameiginlegan fund. Góðar tillögur og hugmyndir komu fram um hvernig mætti styrkja WorldFeng sem ættbókarkerfi fyrir aðildarlönd FEIF. Þá var allt kerfið "rýnt" í þeim tilgangi að benda á hvað mætti betur fara í núverandi útgáfu. Fyrsti fundur nýrrar skýrsluhaldsnefndar FEIF var síðan haldinn á sunnudeginum en í henni eru Inge Kringeland, formaður frá Noregi, Kristín Halldórsdóttir, Þýskalandi, Mike Edwards, Bretlandi og Jón Baldur Lorange, Íslandi, en hann hefur verið í skýrsluhaldsnefndinni frá upphafi.

Þátttakendur talið frá vinstri: Aftari röð: Inge Kringeland, nýr formaður skýrsluhaldsnefndar FEIF, Nils-Ole Gilde, Noregi, Mike Edwards, Bretlandi, Asa Sörlin, Svíþjóð, Annette Knudsen, Danmörku, Per Oddvar Rise, Noregi, Linda Bergström, Finnlandi, Eva Warelius, Svíþjóð, Kristín Halldórsdóttir, Þýskalandi, Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs. Fremri röð talið frá vinstri: Swantje Renken, Þýskalandi, Barla Barandun, Sviss, Kim Middel, Hollandi, Nina Brockie, Færeyjum, Sussie Lindberg, Svíþjóð, og loks Per Anderz Finn, ræktunarleiðtogi FEIF.

(18.05.2005) Fagráð í hrossarækt setti þær reglur vegna þessa sýningarárs að mynda þyrfti alla stóðhesta vegna spatts 5 og 6 vetra sem koma til kynbótadóms og niðurstöður skyldi skrá í WorldFeng. Framkvæmd á þessu er nú komin í fullan gang en niðurstöður röntgenmyndatöku af hæklum er nú skráð í WorldFeng. Áskrifendur WorldFengs geta séð hvort myndataka hafi átt sér stað og hver niðurstaða úr henni var bæði á upplýsingaspjaldi fyrir grunnupplýsingar um hross og einnig á nýju spjaldi - Heilsukort. Sérstakt tákn - stórt S í ramma - er komið vegna spattsins. Ef stafurinn er grænn þá er allt í lagi, ef hann er gulur þá er beðið niðurstöðu en ef hann er rauður þá hefur hesturinn greinst með spatt. Sigriður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, greinir allar röntgenmyndir og skráir niðurstöðuna beint í WorldFeng.

(14.05.2005) Tvær kynbótasýningar hafa verið haldnar á Íslandi á þessu sýningarári þar sem 49 hross hafa komið til dóms. Fleiri hross hafa verið sýnd erlendis það sem af er sýningarárinu. Kynbótasýning á Sörlastöðum í Hafnarfirði hefst í næstu viku og hafa 160 hross verið skráð í sýninguna í dag. Í flokki 4 vetra stóðhesta hefur Bjarmi IS-2001.1.136-413 frá Lundum II hlotið hæsta kynbótadóm aðaleinkunnar 7,81. Í flokki 5 vetra stóðhesta stendur Sandur IS-2000.1.86-285 frá Varmadal efstur með 8,16 af stóðhestum sýndum á Íslandi en 7 hestar hafa fengið hærri dóm á sýningum erlendis. Hæstur er Ísar IS-2000.1.57-023 frá Keldudal með 8,37 í aðaleinkunn en hann var sýndur Solbacken, Sätra Brunn, Svíþjóð. Allir þessar upplýsingar má finna á www.worldfengur.com fyrir þá sem eru áskrifendur.

(10.05.2005) Kynbótasýningar eru hafnar af krafti víðsvegar um Evrópu og fóru nýverið fram sýningar í Noregi, Finnlandi og Danmörku, auk Þýskalands. Helstu fréttir af frammistöðu einstakra hrossa eru þær að stóðhesturinn Garri frá Reykjavík hlaut feiknagóðan dóm á sýningunni í Danmörku eða 8,75 fyrir hæfileika og 8,26 fyrir byggingu, 8,55 í aðaleinkunn. Garri hlaut m.a. 10 fyrir vilja og geðslag og 9,5 fyrir bæði tölt og brokk, en hann er klárhestur. Garri fékk 9,0 fyrir stökk, fegurð í reið, prúðleika og bak og lend. Eigendur Garra eru Jóhann Skúlason og Ove Lorentzen, en ræktandi hans er Berglind Ágústsdóttir. Garri er undan Orra frá Þúfu og Ísold frá Gunnarsholti.
Hægt er að fylgjast með sýningunum undir liðnum "sýningar" hér á www.worldfengur.com, upplýsingar um áskrift fást hjá Bændasamtökunum í síma 5630300. og á netfanginu tolvudeild@bondi.is /HGG

(22.04.2005) Á búgarðinum Pfaffenbuck II hjá Thorstein Reisinger er verið að dæma í dag 31 kynbótahross. Barbara Frische, Johannes Hoyos og Silke Feuchthofen dæma hrossin. Nú er verið að byggingardæma hryssur og stendur hryssan Þryma frá Ketilsstöðum með einkunnina 8,13 efst. Þryma er undan stóðhestinum Otri frá Sauðákróki, sem lifir í góðu yfirlæti á búgarði Reisinger fjölskyldunnar. Sjá meira www.worldfengur.com

(21.04.2005) Í dag stendur yfir kynbótasýning á búgarði Elisabeth Berger í Þýskalandi. Barbara Frische og Jens Füchtenschnieder dæma á sýningunni í dag 18 hross. Byggingardómum er lokið og nú er verið að dæma hæfileika hrossanna. Fjögur hross eru nú kominn með yfir 8 fyrir byggingu. Það eru hrossin Lenox vom Svaða-Kol-Kir með 8,13, Hjörvar vom Kreiswald með 8,11, Tindur vom Adlerhop með 8.03 og Blika frá Wiesenhof með 8.02. Kynbótadómar eru skráðir í www.worldfengur.com.

(15.04.2005) Sýningarárið 2005 er nú að hefjast um allan heim. Kynbótasýning hófst í Wiesenhof í Þýskalandi í dag í skínandi sýningarveðri - léttskýjuðu og mátulegum hita að sögn Kristínar Halldórsdóttur skrásetjara WorldFengs þar í landi. Það stefnir í metþátttöku í alþjóðlegum FEIF sýningum í Þýskalandi í ár samkvæmt FIZO reglum. Marlise Grimm, sem fékk FEIF dómararéttindi í mars sl., dæmir í fyrsta skipti á sýningunni, en þetta er einnig í fyrsta skipti sem FEIF kynbótasýning er haldin í Wiesenhof. Barbara Frische og Jens Fuechtenschnieder eru jafnframt dómarar en á myndinni sjást allir dómarar dæma stóðhestinn Glenur vom Wiesenhof. Að sjálfsögðu eru allir kynbótadómar skráðir beint á staðnum í www.worldfengur.com.

 

(30.03.2005) Á næstunni er ætlunin að halda námskeið og fundi um fyrir notendur WorldFengs. Hestamannafélögum stendur til boða kynning á notagildi upprunaættbókarinnar fyrir félagsmenn sína og einnig stendur bænum til boða dags námskeið í samvinnu við búnaðarsambönd. Beiðni um slíkt þarf að koma fram búnaðarsambandi á hverju svæði en takmarkaðan fjölda námskeiða er að ræða. Verkefnið Upplýsingatækni í dreifbýli styrkir ákveðinn fjölda námskeiða. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Jón Baldur Lorange í tölvudeild sem fyrst til að tryggja sér námskeið á sínu svæði.

(28.02.2005) Okkur hefur borist athugasemd dr. Kai-Uwe Sprenger hjá Evrópusambandinu vegna fréttar okkar um fund ræktunarleiðtoga í Kaupmannahöfn. Athugasemdin er birt í heild á ensku fréttasíðunni.

(19.02.2005) Um síðustu helgi var haldinn fundur ræktunarleiðtoga FEIF í Kaupmannahöfn í tengslum við stórsýningu á íslenska hestinum í Kaupmannahöfn á vegum Danska Íslandshestafélagsins, Dansk Islandshesteforening. Fundur ræktunarleiðtoga hefur verið haldinn í Reykjavík á haustin en ákveðið var að fresta honum til febrúar á þessu ári til að slá saman í einn fund öllum árlegum fundum á vegum FEIF. Þannig voru samhliða fundi ræktunarleiðtoga haldinn fundur með íþróttanefnd FEIF en fulltrúi Íslands í henni er Sigurður Sæmundsson. Jafnframt sátu fund nefndarinnar frá Íslandi Hörður Hákonarson og Sigurður Emil Ævarsson. Íþróttaleiðtogi FEIF er Marko Mazeland. Þá var haldinn fundur í ungliðanefnd FEIF en fulltrúi Íslands í henni er Rosemarie Þorleifsdóttir og fundinn sátu einnig frá Íslandi Sigrún Ögmundsdóttir og Sigurrós Johansdóttir. Menntanefnd FEIF sat fund á sama tíma og er fulltrúi Íslands í henni Herdís Reynisdóttir. Jón Albert Sigurbjörnsson, formaður LH, sat formannafund FEIF. Sérstakur fundur ritstjóra var einnig haldinn en þann fund sat frá Íslandi Jónas Kristjánsson ritstjóri Eiðfaxa. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans, og Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir, fluttu erindi á sameiginlegum fundi allra þátttakenda við góðar undirtektir. Þetta form á fundum FEIF tókst með ágætum og verður lögð tillaga fyrir aðalfund FEIF að framvegis verði þessi háttur hafður á.

Fundur ræktunarleiðtoga FEIF var styttri en venjulega að þessu sinni og þannig gafst of lítill tími til umræðna um miklvæg mál. Per Anderz Finn (SE), ræktunarleiðtogi FEIF, var fundarstjóri og Fi Pugh (GB), ritari FEIF, ritaði fundargerð. Fulltrúar Íslands voru Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur, Hallgrímur S Sveinsson, fulltrúi í dómaranefnd FEIF, og Jón Baldur Lorange, fulltrúi í skýrsluhaldsnefnd FEIF. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir, sat einnig fundinn. Aðrir fundarmenn voru John Siiger Hansen, Danmörku, Per Kolnes, Noregi, (báðir í dómaranefnd FEIF) Rebecka Frey, Svíþjóð, Reinhard Loidl, Austurríki, (fulltrúi í skýrsluhaldsnefnd FEIF), Barla Barandun, Sviss, Barbara Fische, Þýskalandi, Annette Knudsen, Danmörku, Jan Thye, Danmörku, Morten Haggquist, Danmörku, Linda Bergström, Finnlandi,, Mike Edwards, Brelandi, Ewald Schmid, Ítalíu, Carla van Nunen, Hollandi, Hans Bettonviel, Hollandi, Inge Kringeland, Noregi, Per Oddvar Rise, Noregi, Ante Eklund, Svíþjóð, Göran Haggberg, Svíþjóð, Jan Lockwall, Svíþjóð, Karin Magnusson, Svíþjóð, Þorvaldur Árnason, Svíþjóð og loks Anne W. Elwell, Bandaríkjunum, sem sendi nú fulltrúa eftir langt hlé.

Öllum skriflegum skýrslum ræktunarleiðtoga, dómaranefndar, skýrsluhaldsnefndar og um WorldFengs verkefnið var dreift á fundinum án þess að umræða gæti orðið um þær frekar. Mestur tími fór í umfjöllum um staðlaðar reglur um dýralæknaskoðun stóðhesta sem ákveðið var að leggja fyrir aðalfund FEIF síðar á þessu ári. Sigríður Björnsdóttir flutti mjög áhugavert og fróðlegt erindi um niðurstöður rannsókna og markmið slíkra reglna. Það náðist samstaða um sömu reglur um myndatökur á stóðhestum og Fagráð í hrossarækt hafði samþykkt fyrir Ísland. Einnig var samþykkt að hafin yrði söfnun á samræmdum upplýsingum um ástand hrossa á sýningum og var nýrri dýralæknanefnd FEIF falið að gera tillögu að upplýsingablaði. Fundurinn samþykkti tillögu Per Anderz um nýja dýralæknanefnd FEIF, og verður fyrsti formaður hennar Sigríður Björnsdóttir og með henni í nefndinni verður Rebecca Frey frá Svíþjóð. Dómaranefnd FEIF lagði fram tillögu um að gerður yrði listi yfir aðaldómara, sem hefðu mikla reynslu, og skylda yrði að dómari af þeim lista yrði í öllum dómaranefndum alþjóðlegra sýninga samkvæmt FIZO. Þó að fundarmenn væru sammála því að mikilvægt væri að aðaldómari hefði mikla reynslu í dómsstörfum þá hlaut það ekki náð í augum fundarmanna að alþjóðlegum dómurum yrði skipt í tvö hópa með þessum hætti. Tillaga um að allar viðurkenndar FIZO sýningar yrðu alþjóðlegar var betur tekið enda mikilvægt að kröfur til kynbótasýninga séu alls staðar þær sömu m.a. með tilkomu alþjóðlegs kynbótamats. Undantekning verður hins vegar að gera fyrir Ísland með gjald til FEIF fyrir hvert sýnt hross, sem samþykkt var á fundinum að yrði 15 evrur, enda viðurkenndu fundarmenn mikilvægt framlag Íslands til FEIF vegna þróunar og reksturs á WorldFeng. Ennfremur var fjallað um tillögur Þjóðverja um dóma og samþykkt að skoða hvernig útfæra mætti reglur um dóma á folöldum innan FIZO reglna. Tillögu fulltrúa Svía um að ræða um laun alþjóðlegra dómara var vísað frá. Þorvaldur Árnason kynnti vinnu þeirra Ágústs Sigurðssonar við gerð á alþjóðlegu kynbótamati í WorldFeng og lýsti vel markmiðum kynbótaræktunar á íslenska hestinum. Jón Baldur, verkefnisstjóri WorldFengs, fór stuttlega yfir stöðu WorldFengs verkefnisins og óskaði eftir að heyra álit fundarmanna á hve brýnt þeir teldu að Bændasamtök Íslands yrðu skráð á lista Evrópusambandsins yfir viðurkennd ræktunarsambönd sem vörsluaðili upprunaættbókar íslenska hestsins og vísaði þar í niðurstöðu sem Tone Kolnes, forseti FEIF og hann áttu með dr. Sprenger hjá Evrópusambandinu (sjá frétt hér hér að neðan þann 17.12.2004). Þeir fundarmenn sem tjáðu sig um málið töldu það mikilvægt að Ísland kæmist á þennan lista til að styrkja stöðu þeirra gagnvart Evrópusambandinu. Hinsvegar höfðu fundarmenn áhyggjur af "hliðarverkunum" sem gætu komið upp við innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins vegna þessa svo sem að Bændasamtökin yrðu að skrá íslenskan hest inn í WorldFeng sem viðurkennd ættbók af Evrópusambandinu segði að væri íslenskur (þó að um væri að ræða viðurkennda ættbók utan Evrópusambandsins sem fylgdi ekki FIZO reglum um hreinræktuð íslensk hross). Einnig kom fram hjá fundarmönnum að þeir teldu nauðsynlegt að WorldFengur gæti nýst þeim sem ættbókarkerfi m.a. til útgáfu hestavegabréfa. Inge Kringeland frá Noregi var kosinn nýr formaður skýrsluhaldsnefndar FEIF í stað Kati Ahola sem gaf ekki kost á sér áfram en hún hefur skilað góðu starfi síðastliðin 4 ár. Inge náði saman fundi með fulltrúum flestra landa á sunnudeginum til að fjalla um WorldFeng verkefnið og sátu um 20 manns fundinn. Þar var lögð áhersla á að fá fram hugmyndir landanna um hvernig mætti bæta WorldFeng og safna fleiri áskrifendum til að styrkja þróunarstarf á næstu árum. Jón Baldur hvatti aðildarfélög að fara sömu leið og Ísland hefur gert að áskrift að WorldFeng sé hluti af félagsgjaldi. Með því megi lækka áskrift að WorldFeng til muna og að sama skapi auka verðgildi félagsaðildar Íslandshestafélaganna og fjölga meðlimum. WorldFengur væri framlag Íslands til alþjóðlegrar samvinnu innan FEIF. Þorvaldur Árnason kom með tillögu um að WorldFengur yrði kynntur vel á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Svíþjóð í sumar og nýttur til þess risaskjáirnir á milli dagskráratriða.

(23.01.2005) Áskriftarverð óbreytt. Áskrifendur geta nú keypt áskrift að WorldFengur.com í hálft ár með 20 heimsóknum á sama verði og ársfjórðungsáskrift var boðin áður. Með þessu er verið að koma til móts við óskir áskrifenda sem töldu 3ja mánaða áskriftartíma of stuttan. Eftir þessa breytingu geta áskrifendur valið á milli þriggja áskriftarleiða; ársáskrift með 300 heimsóknum, ársáskrift með 150 heimsóknum og hálfsársáskrift með 20 heimsóknum. Þrátt fyrir mikla gengishækkun á krónunni og hækkun verðlags á Íslandi á síðasta ári er áskriftarverð óbreytt. Þetta er mögulegt þar sem áskrifendum fjölgaði um 65% á síðasta ári.

(10.01.2005) Orri frá Þúfu heldur efsta sæti reyndra stóðhesta (50 eða fleiri dæmd afkvæmi) með yfirburðum í nýja kynbótamatinu fyrir öll Norðurlönd. Hann er með 127 í aðaleinkunn kynbótamats. Næstur kemur Gustur frá Hóli með 122 í aðaleinkunn og hefur hækkað sig úr 6. sæti frá því í fyrra. Mökkur frá Varmalæk er efstur reyndra stóðhesta í Svíþjóð með 121 í aðaleinkunn kynbótamats. Kolgrímur frá Kjarnholtum I er eini reyndi stóðhesturinn í Noregi með 113 í aðaleinkunn kynbótamats. Þessar upplýsingar er hægt að fá fram í endurbættri skýrslu um kynbótamat í WorldFeng (Skýrslur - Kynbótamat). Þar er hægt að fá fram hross eftir kyni, aðaleinkunn kynbótamats, fjöldra dæmdra afkvæma og raða eftir öllum eiginleikum kynbótamatsins og síðast en ekki síst að fá skýrslur eftir löndum (hvar hross eru staðsett).

(31.12.2004) WorldFengur óskar öllum áskrifendum gleðilegs og farsæls nýs árs og þakkar fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.

(17.12.2004) Öll aðildarlönd FEIF skrá Ísland sem upprunaland íslenska hestsins í ættbókarskrá Evrópusambandsins. Íslands þarf að innleiða tilskipun nr. 90/427/EEC frá Evrópusambandinu og uppfylla skilyrði reglugerða nr. 92/353/EEC og 92/354/ECC til að fá Bændasamtök Íslands skráð inn í þessa skrá hjá Evrópusambandinu. Noregur og Sviss sem ekki eru í Evrópusambandinu eru í skránni þar sem þessi lönd hafa innleitt fyrrgreinda tilskipun. Þetta kom fram á fundi sem Tone Kolnes, forseti FEIF, og Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs, áttu með dr. Kai-Uwe Sprenger framkvæmdastjóra hjá Evrópuráðinu í Brussels í síðasta mánuði. Einnig sátu fundinn Guðmundur Sigþórsson frá sendiráði Íslands í Brussels og Kristín Halldórsdóttir, skrásetjari IPZV í Þýskalandi. Tilgangur fundarins var að kynna FEIF og WorldFeng fyrir Evrópusambandinu, fá upplýsingar um reglur Evrópusambandsins um skráningar í ættbækur og fá upplýsingar um stöðu fyrirspurnar Íslands uum viðurkenningu á Íslandi sem upprunalands íslenska hestsins. Dr. Sprenger ráðlagði Íslendingum að innleiða tilskipun 90/427/EEC til að tryggja stöðu Bændasamtaka Íslands, sem viðurkennds ræktunarsambands, og WorldFengs, sem upprunaættbókar, enda uppfylltum við öll ákvæði í reglum Evrópusambandsins. Í framhaldinu kom til umræðu kvörtun skoska félagsins SIHA um ójafna stöðu gagnvart WorldFeng en það kom fram að Evrópusambandið hefur ekkert um það að segja þar sem Íslands er þriðja ríki gagnvart Evrópusambandinu. Ef við hins vegar innleiddum tilskipunina breyttist þetta og þá yrði að fara yfir málið á nýjan leik. Að sögn Jóns Baldurs var fundurinn mjög ánægjulegur og gagnlegur en hann stóð í rúmlega 2 klukkustundir í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussels. Þá var farið yfir hin svonefndu EU lífsnúmer eða einkvæm númer fyrir hross sem sambandið er með í umræðunni að innleiða og eiga að koma fram á hestavegabréfum. Tilgangur þeirra er aðallega vegna heilsufarsástæðna (Animal Health and Welfare) en ekki vegna skráninga í ættbækur. "Dr. Sprenger sá ekkert því til fyrirstöðu að við gætum haldið áfram að nota FEIF-ID númerin þar sem þau eru einkvæm á heimsvísu. Þá kom fram í máli dr. Sprenger að hann taldi WorldFeng einstakan í sinni röð vegna þess að þar væri miðægur gagnagrunnur á Netinu fyrir eitt búfjárkyn. Hann vissi ekki um sambærileg kerfi." sagði Jón Baldur og tók fram að það sem þyrfti að gerast næst í þessu máli væri að íslensk stjórnvöld í samvinnu við Bændasamtök Íslands skoði kosti og galla þess að innleiða tilskipun Evrópusambandsins nr. 90/427/EEC. "Staða Íslands sem upprunalands er óumdeild og sama er að segja um WorldFeng sem upprunaættbók íslenska hestsins. Samningurinn um WorldFeng við FEIF, alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins, og samþykkt á alþjóðlegum ræktunarmarkmiðum í formi FIZO sem öll aðildarlönd FEIF undirgangast hefur tryggt stöðu Íslands sem upprunalands. Sama er að segja um reglugerðina um upprunalandið nr. 948/2002 sem inniheldur ræktunarmarkmiðin úr FIZO og FEIF hefur samþykkt." sagði Jón Baldur að lokum.

(15.12.2004) Skýringar hafa fengist hjá Skýrr hf. vegna innbrots brasilísk tölvuþrjóts inn í skilgreiningaskrá hjá Skýrr hf. fyrir þann miðlara sem WorldFengur er skilgreindur á. Þannig var öllum vísað á síðu sem aðeins stóð á Siemens í stað þess að kalla upp upphafssíðu www.worldfengur.com. Fleiri vefur urðu fyrir þessu einnig svo sem vefur Biskupsstofu og einn af þekktustu blogg vefum landsmanna katrin.is. Að sögn þjónustustjóra Skýrr hf. hefur verið gripið til aðgerða til að fyrirbyggja að þetta geti endurtekið sig í framtíðinni en rétt er að taka fram að tölvuþrjóturinn komst ekki í nein gögn né forritskóða. Það voru hins vegar vonbrigði hve langan tíma tók að bregðast við þessu innbroti hjá Skýrr hf.með fullnægjandi hætti og hefur þeirri kvörtun verið komið á framfæri við réttra aðila.

(13.12.2004) Sambandslaust var við WorldFeng í morgun og seint í gærkvöld vegna innbrots tölvuþrjóts í miðlara hjá Skýrr hf. Bændasamtökin hafa óskað eftir ýtarlegri rannsókn og skýringum frá Skýrr hf., sem sjá um hýsingu á WorldFeng. Beðist er velvirðingar á þessu.

(8.12.2004) Opnaður hefur verið umræðuvettvangur um WorldFeng á fréttavefnum 847.is. Þar gefst áskrifendum tækifæri til að koma á framfæri ábendingum um notagildi WorldFengs í dag og með hvaða hætti megi gera kerfið enn betra. WorldFengur er upprunaættbók íslenska hestsins og er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenska hestsins. Hann var opnaður á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í ágúst 2001 og tók við af þremur kerfum; Feng, Íslandsfeng og Veraldarfeng. Á næsta ári stendur til að fara í gagngerar endurbætur á þróunarumhverfi og útliti WorldFengs en því miður hefur ekki unnist tími til þess fyrr. Margvíslegar endurbætur og viðbætur eru þó stöðugt í gangi í tölvudeild Bændasamtaka Íslands til að gera gagnagrunninn öflugri, öruggari og hraðvirkari. Það er vonandi að umræðan á 847 nýtist til uppbyggilegrar umræðu og gagnrýni sem nýta megi í vinnunni framundan.

(1.12.2004) Rúmlega 400 ljósmyndum hefur nú verið bætt við myndasafn WorldFengs. Flestar ljósmyndir eru teknar af Eiríki Jónssyni af kynbótahrossum síðasta sýningarárs en einnig eru ljósmyndir frá einstaklingum. Um 40 ljósmyndir eru af hrossum í Svíþjóð.Skráningarvinna í WorldFeng er í fullum gangi í flestum Íslandshestafélögum innan FEIF. Þannig er nýlega búið að lesa inn um 400 hross frá Íslandshestafélaginu í Bandaríkjunum (USIHC). Vinna er í fullum gangi við skráningu á hrossum úr gagnabanka IPZV í Þýskalandi þar sem rúmlega 2 þúsund hross hafa verið skráð. Sömu sögu er að segja frá Hollandi, Svíþjóð og Noregi. Skráningarvinnu er að mestu lokið í Finnlandi, Bretlandi og Sviss. Heildarfjöldi hrossa í WorldFeng er í dag 210.552 hross og eru um 35% þeirra staðsett erlendis. Í desember stendur hrossaræktendur til boða hagstætt áskriftartilboð að WorldFeng. Jólatilboð á ársáskrift og 150 heimsóknum er kr. 2.990,- en venjulegt verð er 3.990,-. Ársáskrift með 300 heimsóknum fæst í desember á kr. 4.990,- en í janúar hækkar verðið í kr. 6.200,-. Áskrift að WorldFeng er tilvalin jólagjöf fyrir hestamanninn.

(22.11.2004) Nýtt kynbótamat fyrir Norðurlönd (Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð) er komið inn í WorldFeng. Nýtt og endurbætt forrit var notað við útreikninginn og viðameiri gögn í WorldFeng liggja til grundvallar. Sjá frétt hér að neðan. Það sem breytist í kynbótamatinu er að ein einkunn kemur fyrir vilja og geðslag í stað tveggja áður og einkunnir koma fyrir sköpulag og hæfileika sem voru ekki áður. Þorvaldur Árnason mun gera nánari grein fyrir þessum nýja kynbótamatsútreikningi. Áskrifendum WorldFengs er bent á að kynbótamat er hægt að sjá fyrir hvert hross en einnig er hægt að skoða kynbótamatið undir Skýrslur -> Kynbótamat.

(13.11.2004) Nýtt alþjóðlegt kynbótamat var kynnt af Þorvaldi Árnasyni á ráðstefnunni Hrossarækt 2004 sem haldin var í dag. Í erindinum greindi hann frá umfangsmiklum tölfræðilegum greiningum á ætternisskrám og gögnum um kynbótadóma frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum sem eru í WorldFeng. Þá rifjaði hann upp að eitt af verkefnunum innan WorldFengs verkefnsins hafi verið að koma á alþjóðlegu kynbótamati sem gerir samanburð á kynbótahrossum, fæddum og sýndum í mismunandi þjóðlöndum, mögulegan. Fyrsta áfanga er nú lokið með sameiginlegu kynbótamati fyrir Norðurlönd en því verður síðan fylgt eftir með kynbótamati sem einnig byggir á FEIF dómum (FIZO) í öðrum löndum. Þá kom fram hjá Þorvaldi að breytileiki og arfgengi dæmdra eiginleika breyttist verulega í kringum 1990, svo að eðlilegast er að skilgreina sömu eiginleika sem tvo mismunandi eiginleika eftir því hvort dómur átti sér stað fyrir eða eftir 1990. Í nýja matinu fá því eldri dómar minna vægi en þeir nýju. Í fyrsta skipti er einnig reiknað út kynbótamat fyrir aðaleinkunn sköpulags og hæfileika. Þorvaldur kom með nýtt kynbótamat með sér á ráðstefnuna frá Svíþjóð. Á mánudag kynnir Þorvaldur breytingarnar á kynbótamatinu fyrir tölvudeild Bændasamtakanna til að unnt sé að hefja vinnu við að koma nýja matinu inn í WorldFeng en ljóst er að breyta þarf gagnagrunni og forriti WorldFengs vegna þessa.

(10.11.2004) Í tölvudeild Bændasamtakanna og í flestum búnaðarsamböndum er verið að leggja lokahönd á frágang á skýrsluhaldsgögnum frá um 2 þúsund skýrsluhöldurum í hrossarækt. Í fyrsta skipta er skýrsluhald að mestu unnið úti í búnaðarsamböndum en með WorldFeng opnaðist möguleiki á þessari tilfærslu verkefna. Þau búnaðarsambönd sem vinna skýrsluhald í hrossarækt fyrir bændur á sínum svæðum eru Búnaðarsamband Suðurlands, Búnaðarsamtök Vesturlands, Leiðbeiningamiðstöðin í Skagafirði, Ráðunautaþjónusta Húnaþings og Stranda og Búgarður - Ráðgjafaþjónusta Norðausturlandi. Tölvudeild Bændasamtakanna þjónar áfram sem miðstöð skýrsluhaldsins og veitir alla nauðsynlega þjónustu fyrir skýrsluhaldara og búnaðarsambönd. Tölvudeildin sendir eftir sem áður ölllum skýrsluhöldurum í hrossarækt árleg skýrsluhaldsgögn til útfyllingar en það verður sent út í ár um leið og nýtt kynbótamat hefur verið lesið inn. Nýr kynbótamatsútreikningur er væntanlegur á næstunni frá þeim Ágústi Sigurðssyni og Þorvaldi Árnasyni, sem notast við nýtt endurbætt forrit og heildstæðari gögn að þessu sinni.

(04.11.2004) Ellefu hross fengu 8,50 eða hærra í aðaleinkunn kynbótadóms á nýliðnu sýningarári. Þóroddur frá Þóroddsstöðum gnæfir yfir önnur hross með 8,74 í aðaleinkunn sem hann hlaut á Landsmótinu 2004 eins og frægt er orðið. Næst kemur Hryðja frá Hvoli með 8,65 í aðaleinkunn á sama móti. Önnur hross sem fengu hærra en 8,50 í aðaleinkunn voru Akkur frá Brautarholti með 8,57, Pyttla frá Flekkudal með 8,55, Kraftur frá Bringu með 8,55, Aron frá Strandarhöfða með 8,54, Gári frá Auðsholtshjáleigu með 8,54, Dökkvi frá Mosfelli með 8,54, Óskar frá Litla-Dal með 8,54, Illingur frá Tóftum með 8,53 og loks Ægir frá Litlalandi með 8,51. Öll hrossin komu fram á sýningum á Íslandi nema eitt Döggvi frá Mosfelli sem sýnt var á kynbótasýningu í Forstwald í Þýskalandi. Þóroddur fékk 9,04 í hæfileikadómi en ekkert annað hross hefur fengið yfir 9 í hæfileikadómi síðastliðin 2 ár. Árið 2002 fengu Gígja frá Auðsholtshjáleigu og Sóldögg frá Hvoli 9,05 í hæfileikaeinkunn á Héraðssýningunni á Sörlastöðum. Hæsti hæfileikadómur sem skráður er í WorldFeng er 9,23 en þar var á ferð Rauðhetta frá Kirkjubæ á landsmóti fyrir 10 árum síðan. Til að fá réttan samanburð á ofangreindum einkunnum þarf að skoða samhliða aldur hrossanna það ár sem þau voru sýnd.

(21.10.2004) Í dag bættist við nýr og mikilvægur leitarmöguleiki í WorldFeng; leit eftir kynbótadómum (dómaleit). Áskrifendur geta nú t.a.m. leitað að öllum hrossum sem hafa fengið yfir 8,0 í aðaleinkunn í kynbótadómi eða valið hvaða eiginleika sem er svo sem tölt til að leita eftir. Jafnframt býður þessi nýja leit upp á að finna öll afkvæmum t.d. Odds frá Selfossi sem hafa fengið hærri en 9,0 í tölti eða hvaða eiginleika sem er. Þá er hægt að leita eftir sýningum og löndum og blanda þessu öllu saman í samsettri leit. Þannig má fá fram alla dóma árið 2004 í Finnlandi þar sem gefið var 8,5 í tölt eða hærra.

(12.10.2004) Áskrifendum að WorldFeng hefur fjölgað um 62% frá því sama tíma í fyrra eða úr 896 í 1.453 áskrifendur í 16 löndum. Mest hlutfallslega fjölgun hefur orðið í Finnlandi, eða um heil 233% og í Svíþjóð, um 158%, og eru áskrifendur í Svíþjóð 235 talsins eða næst flestir á eftir Íslandi. Íslenskum áskrifendum fjölgaði um 62% og eru nú 815 talsins. Áskrifendum í Danmörku og Austurríki fjölgaði um 67% og eru Danir í 3. sæti yfir fjölda áskrifenda eða 145. Athygli vekur að áskrifendum fækkaði í Noregi úr 43 niður í 32. Fjölgun áskrifenda í Þýskalandi er 12% en þeir eru nú 101 talsins. Bandaríkin eru að taka við sér með 37 áskrifendur og hefur fjölgað um helming á einu ári.

(24.09.2004) Gagnagrunnur WorldFengs fer ört stækkandi og ljóst að mörg aðildarlönd FEIF hafa tekið við sér í skráningarvinnunni. Heildarfjöldi hrossa er komin í 204.906 og þar af eru tæplega 82% fædd á Íslandi eða 167.956 hross. Á um einu ári hefur hrossum fjölgað í gagnagrunninum um 19.685 eða um 11%. Heildarfjöldi hrossa 19. mars 2004 var 194.309. Næstflest hross eru fædd í Danmörku 18.747 (9,1%) og í þriðja sæti er Svíþjóð með 8.613 skráð hross (4,2%) en þar hafa bæst við 3.853 frá því í mars á þessu ári. Holland, Þýskaland og Noregur koma síðan með öll yfir 1.200 hross skráð. Þýskaland á örugglega eftir að sækja í sig veðrið en að undanförnu hefur verið unnið að því að koma gögnum inn frá IPZV í Þýskalandi og mun sjá þess merki á næstu mánuðum. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjölgun skráðra hrossa frá því 19. mars 2004 til 24. sept. 2004 í 6. efstu löndunum. Sjá nánar Top 10 listann.

Land Fjöldi hrossa 19.03.04 Fjöldi hrossa 24.09.04 Fjölgun
Ísland
163.571
167.956
4.385
Danmörk
18.163
18.747
584
Svíþjóð
4.760
8.613
3.853
Holland
3.329
3.563
234
Þýskaland
907
1.287
380
Norway
743
1.205
462

(10.09.2004) Útflutningur. Í dag hafa verið flutt út alls 1.019 hross en þetta er 45 hrossa aukning miðað við sama tíma í fyrra en þá höfðu verið flutt út 974 hross (4,6%). Flest hross voru flutt til Svíþjóðar eða 330 og síðan koma Þýskaland með 157 hross og Danmörk með 145 hross. Alls hafa íslensk hross farið til 15 landa þetta árið. Útflutningur til annarra landa er sem hér segir: Austurríki 41 hross, Belgía 4, Kanada 3, Sviss 58, Finnland 93, Færeyjar 7, Frakkland 3, Bretland 12, Ítalía 2, Holland 9, Noregur 88 og loks Bandaríkin 67. Fleiri hross fara nú til Danmerkur, Finnlands og Austurríkis þetta árið en færri t.d. til Bandaríkjanna og Noregs.

(14.04.2004) Nýstofnuð ræktunarfélög innan Íslandshestafélaganna í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi hafa gert áskriftarsamninga við Bændasamtök Íslands sem tryggja félögum innan þeirra áskriftargjöld að WorldFeng á hagstæðum kjörum. Svipaðir samningar bjóðast einnig öðrum ræktunarfélögum innan Íslandshestafélaga FEIF. Með þessum samningum hefur áskrifendum WorldFengs fjölgað verulega en svipaður samningur var gerður við Félag hrossabænda á Íslandi í fyrra með góðum árangri fyrir alla aðila.

(26.03.2004) Yfirlýsing hefur borist frá Dr. Þorvaldi Árnasyni vegna útreiknings á nýjasta kynbótamatinu fyrir Norðurlönd. Sjá yfirlýsingu á ensku.

(19.03.2004) Það er fróðlegt að skoða fjölgun skráðra hrossa á "Top 10 listanum" yfir fjölda skráðra hrossa eftir löndum frá því 29. maí á síðasta ári. Um 84% af öllum hrossum eru fædd á Íslandi eða 163.571. Næst koma hross fædd í Danmörku 18.163 (9,35%) og í þriðja sæti er Svíþjóð með 4.760 skráð hross (2,45%). Holland og Noregur koma síðan í 4. og 5. sæti. Þetta er sama röð og var í 29. maí 2003. Belgía hefur skotist upp í 7. sæti listans með 666 skráð hross en komst ekki áður á lista yfir 10 efstu löndin. Heildarfjöldi hrossa 19. mars 2004 var 194.309. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjölgun skráðra hrossa frá því 29. maí til 19. mars 2004 í 6. efstu sætunum. Sjá nánar Top 10 listann.

Land Fjöldi hrossa 29.05.03 Fjöldi hrossa 19.03.04 Fjölgun
Ísland
154.844
163.571
8.727
Danmörk
17.865
18.163
298
Svíþjóð
3.719
4.760
1.041
Holland
1.504
3.329
1.825
Noregur
693
907
214
Sviss
613
743
130

(12.03.2004) Búnaðarþing 2004, sem lauk í dag, samþykkti eftirfarandi ályktun um WorldFeng samhljóða:

"Búnaðarþing 2004 lýsir yfir sérstakri ánægju með WorldFeng og hvetur til að hann verði í sífelldri þróun með það fyrir augum að halda sem best utan um allar skýrslur og upplýsingar er varða íslenska hestinn hérlendis sem erlendis. WorldFengur er stórt afl í markaðssetningu íslenska hestsins sem eykur hróður hrossaræktarinnar og Bændasamtaka Íslands innanlands sem utan. Tryggja þarf að hægt sé að sinna nauðsynlegu viðhaldi og endurbótum á kerfinu og svara óskum viðskiptaþjóða okkar eins og frekast er kostur."

(19.01.2004) Nýtt kynbótamat er komið í gagnagrunn WorldFengs. Ágúst Sigurðsson og Þorvaldur Árnason unnu kynbótamatið samkvæmt gögnum úr WorldFeng. Niðurstaða þess markar ákveðin tímamót þar sem í fyrsta skipti eru notuð gögn frá fleiri löndum en Íslandi. Samhliða er merkum áfanga náð í WorldFeng en eitt af markmiðum WorldFengs er einmitt útreikningur á alþjóðlegu kynbótamati. Þau lönd sem bætast við eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Um er að ræða dóma frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 1994-2003 og dóma frá Finnlandi frá árinu 1997-2003. Áskrifendur WorldFengs geta séð hið nýja kynbótamat á hverju hrossi en einnig valið Skýrslur og þar undir Kynbótamat. Þar er unnt að velja hæstu hross eftir kynbótaeinkunn aðaleinkunnar, fjölda dæmdra afkvæma og kyni. Sjá helstu niðurstöður á www.bondi.is

(18.09.2003) Áskrifendum WorldFengs hefur fjölgað um 100 frá því 23. júní sl. og eru þeir nú alls 904. Íslendingar eru fjölmennastir sem fyrr eða 504 (56%). Svíar eru næst fjölmennastir eða 91 og fast á hæla þeim koma Þjóðverjar með 90 áskriftir. Danir eru ekki langt að baki en 87 áskrifendur eru í Danmörku. Norðmenn eru í fimmta sæti með 43 áskrifendur. Fjöldi áskrifenda í öðrum löndum er sem hér segir: USA 25, Holland 18, Sviss 12, Austurríki og Finnland 9, og önnur lönd 16.

(25.07.2003) Heimsmeistaramót íslenska hestsins hefst í Herning í Danmörku 29. júlí nk. Að sögn mótshaldara stefnir í metaðsókn að mótinu frá fjölmörgum löndum. WorldFengur verður að sjálfsögðu á staðnum. Bændasamtök Íslands verða með bás í "Breeders Club" og einnig í íslenska skálanum. Aðalbásinn verður í "Breeders Club" þar sem tvær tölvur verða með tengingu við WorldFeng. Hallveig Fróðadóttir, skýrsluhalds- og útflutningsfulltrúi, Kristín Halldórsdóttir, sem búsett er í Þýskalandi og Þorberg Þ Þorbergsson, forritari WorldFengs, verða á staðnum.. Hallveig og Kristín voru einnig á bás WorldFengs á síðasta Heimsmeistaramóti í Stadl Paura í Austurríki fyrir tveimur árum síðan og eru því reynslunni ríkari. Jens Otto Veje, ræktunarfulltrúi FEIF, og Reinhard Loidl, fulltrúi í skýrsluhaldsnefnd FEIF, verða einnig við og við á básnum. Það væri gaman að sjá sem flesta áskrifendur WorldFengs í heimsókn til að fá fram skoðun þeirra á hvernig bæta má þjónustu við þá. Þá geta mótsgestir komið á básinn til að fletta upp upplýsingum og að sjálfsögðu endurnýjað eða fengið sér áskrift að WorldFeng. Þess má geta að allir kynbótadómar á mótinu verða skráðir inn jafnóðum.

(25.06.2003). Listi yfir skrásetjara WorldFengs var uppfærður í dag. Samkvæmt reglum FEIF þá eiga öll aðildarlönd FEIF að tilnefna skrásetjara að WorldFeng, sem hefur m.a. þá ábyrgð að gefa hrossum FEIF-ID númer (fæðingarnúmer) og grunnskrá það í WorldFeng ef landið er áskrifandi. Samvinna milli skrásetjara er mjög mikilvæg m.a. til að unnt sé að tryggja rétta skráningu á ætterni hrossa. Skrásetjarar WorldFengs eru eftirtaldir: Danmörk: Anne-Grete Veje (joveje@private.dk), Austurríki: Reinhard Loidl (marchegg@islandpferde.at), Belgía: Frans Van Beeck (bsijp@wanadoo.be), Kanada: Brett Arnason (brett@arnasons.ca), Færeyjar: Hjalmar Petersen (hjalmar@vonin.com), Finnland: Linda Bergström (ronja1@saunalahti.fi), Frakkland: Jaqueline Clementz (jacqueline.clementz6@libertysurf.fr), Þýskaland: Andrea-Katharina Rostock (a.-k.rostock@t-online.de), Bretland: Mike Edwards (icehorsestud@hotmail.com eða mike.edwards@nats.co.uk), Holland: Kim Middel (kim_middel@hotmail.com), Ísland: Hallveig Fróðadottir (hf@bondi.is), Írland: Andrea Brodie (fiddlinvet@iegateway.net), Ítalía: Ewald Schmidt (stormur@gmx.net), Lúxemborg: Albert Schiltz (a.schiltz@pt.lu), Noregur: Nils-Ole Gilde (o-gild@online.no), Slóvenía: Tomo Tadel (pro-ma@siol.net) eða Zvone Pavsic (slodan@quantum.si), Svíþjóð: Sussie Lindberg (avel.svenska@icelandichorse.se), Sviss: Barla Barandun (g.u.b.auas.sparsas@bluewin.ch), Bandaríkin: Caryn Cantella (hiddenlakeranch@earthlink.net).

(23.06.2003). Áskrifendum að WorldFeng hefur fjölgað umtalsvert á síðustu vikum og eru þeir í dag samtals 802 talsins. Flestir áskrifendur eru á Íslandi eða 466 (58%), næstflestir frá Þýskalandi eða 78 (um 10%) og Svíar koma næstir með 76 áskrifendur. Í fjórða sæti koma Danir með 64 áskrifendur og Norðmenn eru fimmtir með 39. Fjöldi áskrifenda í öðrum löndum er sem hér segir: Bandaríkin 25, Holland 13, Sviss 11, Austurríki 9, Finnland 7, Kanada 5, Færeyjar 2 og Belgía, Tékkland, Bretland, Írland, Ítalía, Skotland, Slóvenía 1 áskrifanda hvert.

(30.05.2003). Úrval hrossa keppir greinilega á héraðssýningunni á Sörlastöðum í Hafnarfirði sem stendur yfir þessa dagana. Miðað við stöðuna í dag hafa verið dæmdir á Sörlastöðum hæstu stóðhestar á þessu sýningarári í 4 og 5 vetra flokki stóðhesta. Árni Geir frá Feti IS-1999.1.86-908 tekur fyrsta sætið af Hrana DE-1999.1.06-091 frá Schloßberg flokki 4 vetra stóðhesta með aðaleinkunnina 8,19. Þá er Gári frá Auðholtshjáleigu IS-1998.1.87-054 efstur í flokki 5 vetra stóðhesta með aðaleinkunnina 8,63 og toppar þar með Lykil IS-1998.1.87-942 frá Blesastöðum 1A. Gári er þar með kominn með hærri aðaleinkunn en nokkur stóðhestur náði í fyrra í þessum flokki. (sjá einnig frétt 26.05). Bæði Gári og Árni Geir eru Orrasynir.

(29.05.2003) Það hafa ekki orðið miklar breytingar á röðun landa á "Top 10 listanum" yfir fjölda skráðra hrossa í WorldFeng á tímabilinu 10. febrúar til 29. maí á þessu ári. Skráðum hrossum hefur þó fjölgað mikið. Í efsta sæti er sem áður Ísland með 154.844 fædd hross á Íslandi. Þetta er fjölgun um 3.636 hross frá því 10. febrúar. Danmörk er öruggt í öðru sæti með 17.865 hross sem er töluverð aukning frá því í febrúar eða um 6.334 hross. Á þessu tímabili var mikil vinna lögð í að lesa inn hross úr gagnagrunni Dansk Islandshesteforening en allan undirbúning af hálfu Dana sá Annegrete Veje um óaðfinnanlega. Í þriðja sæti er Svíþjóð með 3.719 skráð hross. Þar hefur skráðum hrossum ekki fjölgað á þessu tímabili þar sem ekki hefur unnist tími til að vinna frekar í sænska gagnagrunninum. Að sögn tölvudeildar Bændasamtakanna verður það næsta forgangsmál í haust í gagnamálum að ljúka þeirri vinnu. Hollenski skrásetjarinn, Kim Middle, hefur unnið afrek í skráningu á hrossum á tímabilinu en nú eru 1.503 hross skráð fædd í Hollandi en voru 666 í febrúar. Holland styrkir sig því verulega í sessi í fjörða sætinu. Noregur hækkar sig um eitt sæti frá því síðast með 693 skráð hross en þau voru 511 áður. Sviss er sjötta í röðinni með 613 skráð hross. Í sjöunda sæti er Finnland með 478 skráð hross. Finnar hafa nær lokið við að skrá öll hross í sinni ættbók og á heiðurinn af því starfi Linda Bergström skrásetjari Finna. Auturríki tapar áttunda sætinu til Bretlands. Þar hefur ekkert hross bæst við frá því í febrúar. Bretland hefur skráð 390 hross. Mun betri árangur en í Eurovision! Þýskaland er loksins að rumska og kemst inn á "Top 10 listann" í fyrsta sinn með 268 skráð hross.

(28.05.2003). Aðsóknarmet var slegið að WorldFeng í gær 27. maí þegar fjöldi innlita fór upp í 556 á einum degi. Meðaltal innlita síðasta hálfa árið er um 160 innlit á dag. Aðsókn var næst mest dagana 26. maí og 28. apríl sl. eða 282 innlit. Hér er því um verulega aðsóknaraukningu að ræða. Sýningarárið 2003 er rétt að hefjast þannig að búast má við að aðsóknarmetið frá því gær verði fljótt slegið.

(26.05.2003) Hrani DE-1999.1.06-091 frá Schloßberg er hæstur í flokki 4. vetra stóðhesta sem dæmdir hafa verið árið 2003 með aðaleinkunnina 8,1. Hrani var sýndur á kynbótasýningu í Drammen í Danmörku en fæddist í Þýskalandi. Eigandi og ræktandi er Günther Weber samkv. skráningu í WorldFeng. Í fyrra varð Illingur IS-1998.1.87-280 frá Tóftum hæstur í flokki 4 vetra stóðhesta með einkunnina 8,36. Lykill IS-1998.1.87-942 frá Blesastöðum 1A er hæstur 5 vetra stóðhesta með aðaleinkunnina 8,3. Hann var sýndur í Wurz í Þýskalandi. Uli Reber er skráður eigandi í WorldFeng. Í fyrra varð Djáknar IS-1997.1.84-211 frá Hvammi eftur í flokki 5 vetra stóðhesta með aðaleinkunnina 8,35. Rétt er að taka fram að sýningarárið 2003 er rétt að hefjast þannig að miklar breytingar eiga örugglega eftir að verða á stöðu efstu hrossa.

(26.05.2003). Kynbótasýningar 2003 eru komnar í fullan gang um allan heim. Frá forsíðunni er hægt að sjá yfirlit yfir þær sýningar sem er lokið, eru í gangi eða eru að hefjast. Fyrir áhugasama er einnig unnt að sjá hæstu dóma sýningarársins 2003 á hverjum tíma og eru þá sýningar á Íslandi og í öðrum löndum teknar með. Velja verður sýningarár í listaglugganum. Þessi listi er aðeins á íslensku en vonandi næst að þýða hann á önnur tungumál fljótlega.

(05.12.2002) Er til ljósmynd/ir af hrossinu, hefur það hlotið kynbótadóm eða er það örmerkt? WorldFengur er í stöðugri þróun eins og notendur hafa vonandi orðið var við. Nýjasta viðbótin svarar fyrrgreindum spurningum á fljótlegri hátt en áður: Nú geta notendur fengið þessar upplýsingar í grunnupplýsingamyndinni og ekki þarf lengur að smella á flipana myndir, dómur eða merki. Ef til er ljósmynd af hrossinu í gagnasafninu birtist táknið , ef dómur finnst birtist táknið og ef hrossið er einstaklingsmerkt þá birtist táknið .

(21.11.2002) Um 300 ljósmyndum bætt í WorldFeng. Í dag var um 300 ljósmyndum bætt í gagnasafn WorldFengs. Myndirnar eru af kynbótahrossum á Landsmótinu á Vindheimamelum í sumar, sem Eiríkur Jónsson ljósmyndari tók, en nokkrar eru frá eigendum hrossa sem nýtt hafa sér þann möguleika að senda inn myndir af hrossum sínum.

Náið samstarf FEIF landanna skilar árangri (19.11.2002)
Ræktunarfulltrúar FEIF landa hittust á árlegum fundi sínum í London helgina 8.-10. nóvember sl. Undanfarin ár hefur fundurinn verið haldinn í Reykjavík en nú var brugðið út af vananum í þeim tilgangi að reyna að fá ræktunarfulltrúa frá löndum sem yfirleitt hafa ekki séð sér fært að mæta, en það bar ekki árangur.

Fundurinn var haldin á hinu virðulega Clarendon Hóteli í Blackheat í London og mættu fulltrúar frá Austurríki, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Noregi, Íslandi, Svíþjóð, Sviss og Þýskalandi. Skrásetjarar WorldFengs í Danmörku, Noregi og Hollandi voru einnig meðal fundarmanna. Jafnframt sat forseti FEIF Tone Kolnes fundinn, ásamt Fi Pugh, ritara FEIF og Jens Otto Veje, ræktunarleiðtogi FEIF, sem sat í forsæti fundarins.

Frá Íslandi komu Ágúst Sigurðsson, hrossaræktarráðunautur Bændasamtaka Íslands og fulltrúi í ræktunarnefnd FEIF, og Jón Baldur Lorange, verkefnisstjóri WorldFengs verkefnisins og fulltrúi í skýrsluhaldsnefnd FEIF.

Stærsta fundarefnið var umfjöllun um stöðu WorldFengs, samstarfsverkefnis Bændasamtaka Íslands og FEIF og gaf Jón Baldur Lorange skýrslu um stöðu þess. Helstu markmiðum verkefnsins væri náð og vinna við innskráningu eða innlestur á gögnum væri í fullum gangi. Að sögn Jóns Baldurs vonaðist hann til að um áramót væru gögn kominn inn að mestu leyti frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Sviss og Bretlandi. Samstarfið við Þjóðverja væri aftur hafið eftir "smátruflun" og einnig hefðu Norðmenn lýst því yfir að þeir hefðu áhuga á að semja við tölvudeild Bændasamtakanna um að taka að sér skráningu fyrir þá til að flýta verkinu. Hollendingar væru einnig í fullum gangi að undirbúa sín gögn.

Annegrete Veje, skrásetjari WorldFengs í Danmörku, gerði grein fyrir þeirri vinnu sem hefði verið unnin við undirbúning að innlestri á gagnagrunni Danska Íslandshestafélagsins í WorldFeng og hvað væri eftir í þeirri vinnu. Hún lýsti yfir ánægðu með samstarfið við tölvudeild Bændasamtakanna. Í dag hafa verið flutt 12 þúsund hross yfir í WorldFeng af um 17 þúsund. Næsta skrefið er að flytja alla kynbótadóma og er áætlað að því verki ljúki í þessum mánuði.

Tone Kolnes gaf skýrslu fyrir hönd Inge Kringeland ræktunarfulltrúa Norðmanna um notkun á WorldFeng í skráningu á þremur alþjóðlegum kynbótasýningum í Noregi á þessu ári. Sú vinna hefði gengið vonum framar, hefði auðveldað og minnkað alla vinnu við sýningarstarfið. Hún vildi koma þökkum til WorldFengs fólksins á Íslandi fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.

Ágúst Sigurðsson flutti erindi um kynbótamat og undirbúning að alþjóðlegu kynbótamati sem byggði á gögnum í WorldFeng. Í máli hans kom fram að reiknað er með að fyrsta matið verði byggt á gögnum frá öllum norðurlöndunum en nú er verið að rannsaka samræmi í eldri dómum og meta erfðastuðla innan og milli landa. Síðan verði hægt að bæta inn í matið gögnum frá fleiri löndum eftir því sem þau tínast inn í WorldFeng.

Þá flutti Ágúst einnig erindi um skilgreiningar og skráningu á hrossalitum og lagði fram hugmynd að nýju litskráningarkerfi.

Í fyrsta sinn í mjög mörg ár var ekkert fjallað um kynbótadóma og reglur þar um á ræktunarfundinum en nýju reglurnar um kynbótadóma, FIZO 3.2002, sem síðasti aðalfundur FEIF samþykkti eru nú fullgildar í öllum FEIF löndum. Markar það í rauninni mikil tímamót en í WorldFeng verður ekki hægt að skrá aðra kynbótadóma en þá sem eru í samræmi við FIZO 3.2002 frá og með árinu 2003. Það má benda á það að íslenska dómkerfið eins og það var skilgreint s.l. sumar er kjarninn í FIZO 3.2002. Á fundinum voru lögð fram til kynningar og umræðu hin nýju hestavegabréf sem Bændasamtökin hófu að gefa út í júlí á þessu ári. Allir ræktunarfulltrúarnir lýstu yfir ánægju með vegabréfin og sögðu þau standast allar kröfur sinna landa fullkomlega. Fulltrúi svía PA Finn greindi frá hugmyndum um að nota svonefnd Smartkort til að geyma upplýsingar sem skráðar eru í hestavegabréfin. Hann sagði frá því að sænsk yfirvöld væru nú að kanna hvort slík kort væru til hægðarauka og fengjust samþykkt innan evrópusambandsins. Að sögn Ágústar Sigurðssonar og Jóns Baldurs Lorange voru þeir mjög ánægðir með fundinn, ríkt hefði mikill samhugur í verki og léttur andi en næsti fundur verður haldinn í Reykjavík að ári.

11.07.2002: Hvaða stóðhestar eða hryssur eru hæstar í kynbótamati aðaleinkunnar? Hvaða hross eru hæst í tölti, vilja og fegurð í reið? Hvaða hross eru með fleiri en 100 dæmd afkvæmi? Nú er hægt að fá svör við þessum spurningum og fleirum varðandi kynbótamat í WorldFeng. WorldFengur skrifar niðurstöður í PDF skrár og eru töflur settar upp með sambærilegum hætti og var í Hrossaræktin I, sem var seld í áskrift. Í dag er þessi þjónusta innifalin í áskrift að WorldFeng. Sjá Skýrslur -> Kynbótamat. Sjá einnig helstu niðurstöður kynbótamatsins á síðunni Áhugaverð hross.

07.10.2002: Nýtt kynbótamat hefur nú verið reiknað fyrir öll íslensk fædd hross í gagnagrunni WorldFengs. Á næsta ári er stefnt að því að reikna alþjóðlegt kynbótamat þegar fyllri upplýsingar hafa verið skráðar í gagnagrunninn og þ.á.m. erlendir kynbótadómar.

20.09.2002: Forseti The United States Icelandic Horse Congress Sara Conklin hefur undrritað áskriftarsamning við Bændasamtökin um aðild að WorldFeng. Bandaríkin eru 6. landið sem skráir kynbótasýningu beint inn í WorldFeng en sýningin (US-2002-01) var haldin í Kaliforníu í þessum mánuði. Dómarar voru Ágúst Sigurðsson og Jón Vilmundarson. Sjá frétt á Eidfaxi.is.

10.09.2002: Hvaða litarnúmer skal skrá á hrossið? Það getur oft verið vandasamt að finna út rétta litarnúmerið þegar hross eru skráð í skýrsluhaldinu. Nú er unnt að nota WorldFeng til aðstoðar. Bætt hefur verið inn myndum af hrossum í flestum litum og með því að smella á litarnúmerið í grunnupplýsinga mynd hvers hross þá birtast myndir af hrossum í þessum ákveðna lit. Einnig er hægt að kalla upp litartöfluna og velja litarnúmer og fá fram myndir af hrossum í umbeðnum lit.

12.07.2002: Um 11 þúsund íslensk hross, fædd í Danmörku, bættust við gagnagrunn WorldFengs í gær. Jafnframt bættust við um 1.600 hross frá Svíþjóð. Þar með eru 145.091 hross skráð í gagnagrunn WorldFeng. Með þessu áfanga hefur verið stigið mikilvægt skref í uppbygginginu á einum alþjóðlegum gagnagrunni fyrir íslenska hestinn.

11.07.2002: Í þessum mánuði þurfa útflytjendur hrossa að fá hestavegabréf í stað upprunavottorða þegar hross eru flutt út. Þetta er samkvæmt lögum nr. 55 dagsettum 2. maí 2002. Landbúnaðarráðuneytið setti reglugerð um útflutninginn í síðasta mánuði og tók hún gildi frá og með 1. júlí 2002. Erlendis hefur það tíðkast í þó nokkurn tíma að gefa út hestavegabréf (horse passport), sem er nauðsynlegt til að unnt sé að flytja hross á milli landa. Hestavegabréf skal einungis gefa út einu sinni fyrir hvert hross og skal það fylgja hrossinu alla ævi þess. Upplýsingarnar sem eru skráðar í vegabréfið byggjast á gagnagrunni WorldFengs, upprunaættbók íslenska hestsins. Upplýsngar sem prentaðar eru í vegabréfið er m.a. fæðingarnúmer hrossins, nafn, uppruni, litur, upplýsingar um einstaklingsmerkingu og eiganda/ur við útgáfu vegabréfsins. Tunglið ehf. hannaði útlit vegabréfanna, en þau eru prentuð á vandaðan pappír. Boðað hefur verið til blaðamannafundar þriðjudaginn 16. júlí nk. þegar fyrsta vegabréfið verður afhent.

11.07.2002: Landsmót 2002 á Vindheimamelum tókst í flesta staði með ágætum. Skipuleggjendur eiga hrós skilið. WorldFengur var með bás á staðnum með tveimur tölvum þar sem hægt var að skoða WorldFeng. Fjöldi gesta nýtti sér þetta m.a. Anna prinsessa frá Bretlandi sem kom í fylgd með Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta. Öllum ber saman um það að Anna sé vel að sér um hrossarækt og fengur yrði af því ef hún tæki ástfóstru við íslenska hestinn. Bændasamtökin gáfu Önnu eintak af Íslandsfeng og áskrift að WorldFeng. Á Landsmótinu var nýtt fyrirkomulag á áskriftum kynnt. Annars vegar er boðið upp á ársáskrift eða allt að 300 innskráningar og hins vegar 3ja mánaða áskrift eða 30 innskráningar. Þess má geta að fjöldi áskrifenda er að ná fimmta hundraðinu en markmiðið er að þeir verði um eitt þúsund í upphafi ársins 2003.

07.06.2002: Hvaða kynbótahross hafa náð inn á Landsmót 2002? Skoðið Landsmótslistann en hann uppfærist sjálfkrafa um leið og dómar hafa verið skráðir inn í WorldFeng. Jafnframt er hérna um að ræða lista yfir hross sem hlotið hafa hæstu kynbótadóma í hverjum flokki á sýningarárinu 2002.

06.06.2002: Mikil aðsókn hefur verið að WorldFeng síðustu vikurnar vegna kynbótasýninga víða um land. Þannig voru heimsóknir um 10 þúsund í maí mánuði sem er mesta aðsókn í einum mánuði frá því WorldFengur var opnaður í ágúst á síðasta ári. Á nokkrum dögum hafa hundruði hrossa komið til kynbótadóms eða 154 í Skagafirði, 192 á Sörlastöðum í Hafnarfirði og um 300 á Gaddstaðaflötum, en þar á eftir að dæma um 270 hross. Næsta lota er að hefjast með héraðssýningum í Borgarnesi, Hvammstanga, Húnaveri og Stekkhólma. Þá má vekja athygli á kynbótasýningunni í Vestnes í Noregi. Kynbótadómarnir eru skráðir beint inn í WorldFeng og öllum áskrifendum WorldFengs þar með sýnilegir. Vegna þessa aukna álags komu upp vaxtaverkir sem ráðið hefur verið bót á. Rétt er þó að hvetja áskrifendur til að stilla vefrápara sinn rétt til að koma í veg fyrir vandamál.

08.05.2002: Kynbótasýningar eru að hefjast af fullum krafti hérlendis og erlendis þessa dagana. Í WorldFeng má fylgjast með kynbótasýningum um leið og þær fara fram. Þannig má segja að hægt sé að fylgjast með þeim "í beinni útsendingu" í WorldFeng. Á Íslandi verða allar kynbótasýningar skráðar inn í Feng, eins og undanfarin ár. Íslandshestafélagið í Noregi hefur ákveðið að skrá einnig kynbótasýningar beint inn í WorldFeng. Sama er að segja um flestar sýningar í Finnlandi. Unnt er að fara í valliðinn Sýningar til að skoða allar sýningar eftir árum, löndum eða heiti sýninga. Síðan er hægt að prenta út sýningar- og dómaskrá á hefðbundnu sniði. Hér að neðan má sjá þær sýningar sem hafa farið fram á árinu 2002 eða eru að fara hefjast.

2002 01 Hovedutstilling Drammen, Noregi (alþjóðleg sýning)
2002 01 Panoramahof, Austurríki
2002 01 Ypäjä 11.-12.5.2002, Finnlandi
2002 02 Stóðhestasýning í Gunnarsholti

06.05.2002: WorldFengur er að festa sig í sessi sem ættbók íslenska hestsins. Mögulegt er að bæta við tengingu frá heimasíðum inn á ákveðið hross í WorldFeng. Skilyrði er að sjálfsögðu að gestur síðunnar sé áskrifandi að WorldFeng. Til þess að flétta upp hrossi í WorldFeng er bætt við þessum "línk": http://www.worldfengur.com/main.jsp?FN=IS1990186271, þar sem FN=<fæðingarnúmer hrossins>. Skoðið vefsíður sem hafa tengst WorldFeng nú þegar.

11.04.2002: Fundur í stjórn WorldFeng verkefnisins verður haldinn í Arnakke í Danmörku 24. apríl nk. Einnig er haldinn fundur í skýrsluhaldsnefnd FEIF á sama stað dagana 23.-24. apríl.

22.03.2002: Bændasamtök Íslands og Hestur.is undirrituðu nýtt samkomulag til eins árs í vikunni um breytingu á samstarfi sín á milli. Samningi um markaðssamstarf um netbanka frá árinu 1999 er sagt upp og í stað þess er ætlunin er að hefja samstarf um bókaútgáfu á vegum Hestur.is. Mesta breytingin sem samkomulagið hefur í för með sér er að Bændasamtökin munu hætta rekstri Veraldarfengs á netinu. Núverandi áskifendum Veraldarfengs verður boðin áskrift að WorldFeng í staðinn út áskriftartímann. Gagnkvæmur afsláttur, eða 40%, verður veittur þeim viðskiptavinum sem gerast áskrifendur að WorldFeng og Hesti (Hestur.is) í framtíðinni, en ekki verður samstarf um innheimtu áskriftargjalds eins og verið hefur. Hestaáhugamenn munu einnig í framtíðinni njóta þessa nýja samkomulags í formi enn veglegrar bókaútgáfu um íslenska hestinn, en Bændasamtökin munu leggja til efni ásamt því að eiga samstarf við Jónas Kristjánsson, ritstjóra Hestabóka, um efni og efnistök.

21.03.2002: Áttu ljósmynd af hrossinu þínu? Fyrir kr. 1.000,- gjald er hægt að koma inn í WorldFeng ljósmynd af hrossinu þínu. Sendu myndina á tölvutæku formi á netfangið worldfengur@worldfengur.com . Einnig er hægt að senda venjulegar ljósmyndir til tölvudeildarinnar. Utanáskriftin er: Bændasamtök Ísland, tölvudeild, Hótel Saga v. Hagatorg, 107 Reykjavík. Það þarf að tilgreina fæðingarnúmer hrossins ásamt upplýsingum um ljósmyndara (nafn og kennitala). Myndir sem sendar eru inn á tölvutæku formi þurfa að vera að minnsta kosti 585 x 390 pixels að stærð (stærðarhlutföllin þurfa að vera Hæð = 1, Breidd = 1,5) og upplausnin amk. 72. Tekið er við myndum á tölvutæku formi, filmum (venjulegum og slides) eða venjulegri ljósmynd.

14.03.2002: Áskrifendum WorldFengs fjölgar ört þessa dagana. Í dag hafa 209 manns gerst áskrifendur í 12 löndum. Flestir áskrifendur eru frá Íslandi og næst flestir frá Svíþjóð.

08.03.2002: Samkvæmt nýjum búnaðarlagasamningi mun íslenska ríkið leggja til WorldFengs verkefnisins 2,5 milljón kr. árin 2003 og 2004 og síðan 1,5 milljón króna árin 2005-2007. Þetta er ánægjuleg viðurkenning fyrir þá sem hafa unnið að uppbyggingu á WorldFeng.

08.03.2002: IPZV, þýska Íslandshestafélagið, skrifaði undir áskriftarsamning að WorldFeng 2. mars sl. Sjá frétt á vef IPZV. Þar með eru stærstu aðildarlönd FEIF orðnir áskrifendur að hinum alþjóðlega gagnagrunni um íslenska hestinn - WorldFeng. Tölvudeild Bændasamtaka Íslands undirbýr flutning á gögnum úr þýsku og sænsku gagnagrunnunum inn í WorldFeng og þar með bætast fleiri þúsund hross við þau 130 þúsund sem eru í grunninum í dag. Töluverð vinna er við að undirbúa gögnin þar sem grunnskrá þarf mörg þúsund hross fædd á Íslandi, sem ekki voru komin inn.

08.03.2002: Í vikunni opnaði Halldór Blöndal, alþingismaður og forseti sameinaðs þings, vef ræktarbúsins í Torfunesi. Vefurinn er hannaður af fyrirtækinu Netlist ehf. í veflausnarkerfinu Óðni. Óðinn er hannaður með það í huga að auðvelt sé að viðhalda honum án þess að hafa sérstaka þekkingu á forritun fyrir vefinn. Á sama tíma var skrifað undir samkomulag milli Bændasamtakanna og Netlistar ehf. um tengingar á milli Óðins og WorldFengs. Þannig verður hægt að smella á hross í Óðni og fá upp hrossið í WorldFeng, svo fremi sem viðkomandi sé áskrifandi að WorldFeng. Einnig verður unnt að senda sölulista frá hrossaræktarbúum sem nota Óðinn yfir í WorldFeng þar sem verður tenging yfir í viðkomandi hrossaræktarbú. Myndir úr Óðni munu einnig sjálfkrafa flytjast yfir í WorldFeng. Að sögn Jón Baldurs Lorange, verkefnastjóra WorldFengs, er ánægjulegt að Bændasamtökin geti stutt við bakið á framsæknum verkefnum sem þessum og stuðlað að öflugri kynningu á íslenskri hrossarækt.

22.02.2002: Dansk Islandshesteforening, danska Íslandshestafélagið, hefur sótt um áskrift að WorldFeng. Danmörk er 12 aðildarland FEIF sem sækir um áskrift að kerfinu og að sjálfsögðu er mikill fengur að fá Dani með í samstarfið um uppbyggingu á alþjóðlega gagnagrunninum um íslenska hestinn.

30.01.2002: Ljósmyndum af rúmlega 2.000 hrossum hefur verið bætt við gagnagrunn WorldFengs. Unnt er að skoða myndirnar ef farið er í flipann Myndir í aðalmynd fyrir hrossið og eru myndirnar í tveimur stærðum. Með því að smella á litlu myndina kemur upp gluggi með stærri útgáfu myndarinnar. Langflestar af nýjustu myndunum tók Eiríkur Jónsson, blaðamaður.

26.01.2002: Fundurinn Münster í Þýskalandi tókst vonum framar. IPZV hefur ákveðið var gerast áskrifandi að WorldFeng á þessu ári og gögn úr gagnagrunni IPZV verða lesin inn í gagnagrunn WorldFengs á næstunni. Einnig verður útbúin sjálfvirk uppfærsla úr gagnagrunni IPZV í gegnum FTP miðlara Bændasamtakanna NONNA. Á myndinni eru Andrea-Katharina Rostock, Sokrates frá Gretesch (DE-1986-1-03621) , Jón Baldur Lorange og Lutz Lesener.

10.01.2002: Vinnufundur verður haldinn milli BÍ og IPZV þann 23. janúar nk. í Þýskalandi. Tilgangur fundarins er að ræða tæknileg atriði varðandi möguleika á innlestri gagna úr gagnagrunni IPZV inn í WorldFeng. Jón Baldur Lorange fer utan frá BÍ til fundar við Andrea-Katharina Rostock og Lutz Lesener from IPZV

10.01.2002: Sænska Íslandshestafélagið hefur óskað eftir því við tölvudeild Bændasamtakanna að gögn í gagnagrunni þeirra verði flutt yfir í gagnagrunn WorldFengs. Á næstu vikum og mánuðum verður unnið að þessu en að mikil vinna er við endurnúmerun hrossa sem höfðu fengið bráðabirgðanúmer í sænska grunninum. Að þessu verki loknu fjölgar hrossum í WorldFeng a.m.k. um 2.000.

03.01.2002: Mjög margir nýttu sér ókeypis aðgang að WorldFeng yfir hátíðirnar. Vegna tæknilegra örðugleika hjá Skýrr hf. og vegna mikils álags var tengingin við miðlara WorldFengs því miður stundum í ólagi. Það er von okkar að þessir vandamál séu að baki. Í dag kl. 11:00 var lokað fyrir fría aðganginn. Til að gerast áskrifandi er þetta eyðublað fyllt út.

02.01.2002: Topp 10 listinn. Skrásetjarar þriggja landa hafa unnið ötullega að skráningu í WorldFeng yfir hátíðirnar. Sviss er komin yfir 300 hrossa markið og heldur örugglega 2.sætinu á listanum. Finnland hækkar sig í 3.sætið 231 skráð hross. Bretland hefur komist yfir 100 hrossa markið með 110 skráð hross. Top 10 listinn.

21.12.2001: Íslandsfengur 4.0 CD-ROM kom í hús í dag, en hann er fjölfaldaður í Danmörku. Hann verður sendur út til allra kaupenda í dag.

21.12.2001: Mörg hundruð áhugamenn um íslenska hestinn hafa nýtt sér frían aðgang að WorldFeng undanfarna daga. Miðlarinn sem notaður var fyrir WorldFeng þoldi ekki álagið svo farið var í það í gær hjá Skýrr hf. að færa WorldFeng yfir á öflugri miðlara. Notendur ættu að finna fyrir þessu í "betri gangi" hér eftir.

21.12.2001: Ljósmyndum verður bætt við gagnasafn WorldFengs snemma á næsta ári. Í fyrstu verður bætt við myndum í tengslum við litgreiningarverkefni sem Stofnverndarsjóður veitti styrk til. Þannig verður hægt að sjá dæmigerð hross miðað við litarnúmer. Síðar bætast við myndir af einstökum kynbótahrossum.

12.12.2001: Kennitölu hefur verið breytt í WorldFeng. Kennitala eru nú 12 stafir þar sem landskóða hefur verið bætt framan við. Kennitölur Íslendinga hafa eftir breytinguna IS fremst. Hvert land gat gefið 10 stafa númer innan landsins óháð öðrum löndum. Þannig gat sama númerið komið upp milli landa. Þetta skapaði ekki vandamál í gagnagrunninum þar sem landskóði var geymdur með eigendafærslunni. Hins vegar þegar notendur slógu inn eigendanúmeri sem kom fyrir í fleiri en einu landi var þetta farið að valda ruglingi í uppflettingum. En hér með hefur verið bætt úr því og eru nú allir eigendur með 12 stafa einkvæmt númer í gagnagrunninum á sama hátt og hrossin. Skrásetjarar sem skrá inn eigendur og ræktendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af meiri vinnu þar sem WorldFengur kemur sjálfkrafa upp með landskóðann þar sem slá á inn kennitölu.

04.12.2001: Íslandsfengur 4.0 kemur út í desember 2001 með nýju gagnasafni. Gagnasafnið hefur stækkað umtalsvert og inniheldur það upplýsingar um tæplega 137 þúsund hross. Allir kynbótadómar sýningarársins 2001 hafa bæst við sem og nýtt kynbótamat, sem reiknað var út í september 2001. Þá má benda á að í fyrsta skipti eru nokkur hundruð íslensk hross, fædd erlendis, í gagnasafninu. Fjöldi þeirra á eftir að aukast verulega á næstu árum. Íslandsfengur 4.0 kostar kr. 9.900 m.vsk. Eigendum Íslandsfengs 3.0 býðst Íslandsfengur 4.0 á kr. 5.900 m.vsk. Ennfremur er rétt að benda á sérstök tilboð fyrir eigendur Íslandsfengs ef keypt er áskrift að WorldFeng (25% afsláttur af áskrift) eða Veraldarfeng/Hestur.is (50% af áskriftargjaldi). Tryggðarviðskiptavinir, þ.e.a.s. þeir sem keyptu Íslandsfeng 2.0 og Íslandsfeng 3.0, býðst Íslandsfengur 4.0 á aðeins kr. 4.990 m.vsk. Þetta gildir einnig fyrir þá viðskiptavini okkar sem keyptu áskrift að Veraldarfeng/Hestur.is á síðasta ári og Íslandsfeng 3.0. Tryggðarviðskiptavinum, samkvæmt fyrrgreindri skilgreiningu, býðst að kaupa auka eintak af Íslandsfeng 4.0 á aðeins kr. 1.500 m.vsk. Þetta auka eintak er tilvalið í jólapakkann. Panta.

26.10.2001: Gögn frá Finnlandi og Noregi. Íslandshestafélögin í Finnlandi og Noregi hafa unnið að undirbúningi að skráningu á íslenskum hrossum sem fæddust í fyrrgreindum löndum. Við ættfærslu þessara hrossa hefur þurft að grunnskrá um 200 hross hjá BÍ, sem voru flutt úr landi á sínum tíma og fæddust á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Þessari vinnu er nær lokið, að sögn Hallveigar Fróðadóttur, fulltrúa í skýrsluhaldi í hrossarækt hjá BÍ, en þetta getur verið tafsöm rannsóknarvinna að leita uppi upplýsingar um þessi gömlu hross.

19.10.2001: Gögn frá Svíþjóð. Í tölvudeild BÍ er verið að skoða gögn úr gagnagrunni sænska Íslandshestafélagsins, en félagið ákvað nýlega að gerast áskrifandi að WorldFeng. Í fyrstu atrennu koma inn öll hross sem eru fædd í Svíþjóð með forfeður með beina tengingu við innflutt hross frá Íslandi. Næsta skref er að vinna frekar með hross þar sem forfeður eru frá öðrum löndum en Svíþjóð eða Íslandi.

1.10.2001: Nýtt kynbótamat, reiknað í september 2001, er komið inn í gagnagrunn WorldFengs.

Passið upp á lykilorðin að WorldFeng! Aðgangur að WorldFeng er mögulegur alls staðar frá á Netinu. Með aðgangsorðum ykkar, sérstaklega þeirra sem hafa réttindi sem dómarar, er hægt að skrá og breyta kynbótadómum sem og öðrum upplýsingum um hross. Ekki gefa öðrum upplýsingar um aðgangsorð ykkar eða hafið þau á glámbekk þegar kynbótasýningar standa yfir. Ef þið teljið að einhverjir hafi komist að lykilorðinu óskið þá eftir nýju lykilorði.

WorldFengur er auðveldur í notkun og besta leiðin til að kynnast kerfinu er að vinna í því af kappi og prófa sig áfram. Engu að síður getið þið skoðað notandahandbók WorldFengs hér í stökum glugga.

Þeir sem skrá kynbótadóma á sýningum þurfa að kynna sér vel í tíma WorldFeng og með hvaða hætti á að undirbúa sýningu og skrá dóma inn í kerfið. Hérna má nálgast dómaleiðbeiningar, sem nauðsynlegt er að skoða í þessu sambandi.

Kynnið ykkur stillingar á Internet Explorer vefrápara.

 

 

 

 

Gagnlegar upplýsingar

Alþjóðlegt kynbótmat

Valparanir (kynbótaspá)

Hæstu dómar eftir árum

Fjöldi hrossa

Fengur - saga

FIZO reglur 6/2006

Stutt leiðsögn

Handbók á ensku

WF FEIF reglur

Skrásetjarar WorldFengs

Tenglar

Starfslið WorldFengs hjá BÍ: Jón B Lorange, verkefnisstjóri, Þorberg Þ Þorbergsson, forritari, Hallveig Fróðadóttir, landsskrásetjari, Linda K Gunnarsdóttir, landsskrásetjari, Hrefna Hreinsdóttir, þjónustufulltrúi og Jóhanna Lúðvíksdóttir, þjónustufulltrúi.

Stjórn WorldFengs verkefnsins:Marlise Grimm (DE), FEIF, Mike Edwards (GB), FEIF, Guðlaugur Antonsson, BI, Jón B Lorange, BI.

Skýrsluhaldsnefnd FEIF: Mike Edwards, Bretlandi, formaður, Krístin Halldórsdóttir, Þýskalandi, Tim van der Akker, Hollandi, Annette Knudsen, Danmörku og Jón Baldur Lorange, Íslandi.

Eftirtalin lönd eru aðilar að WorldFengs verkefninu:

Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Færeyjar, Þýskaland, Bretland, Lúxemborg, Holland, Noregur, Ítalía, Svíþjóð, Sviss and Bandaríkin.

© Bændasamtök Íslands 2001-2006

Síðast uppfært: 29-Jun-2007 21:40

Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum vegna gagna í WorldFeng geta sent tölvupóst til Hallveigar Fróðadóttur.

Ábendingum um hvað megi betur fara í uppbyggingu WorldFengs geta sent póst til Jóns B Lorange.