Alþjóðlegt kynbótamat fyrir íslensk hross 2005
BLUP aðferðin
eftir dr. Þorvald Árnason
Kynbótamat fyrir íslensk hross er reiknað með BLUP aðferðinni fyrir einstaklingslíkan. BLUP er skammstöfun fyrir Best Linear Unbiased Prediction sem þýðir besta línulega óskekkta spá um kynbótagildi gripanna út frá upplýsingum um mælda eiginleika í tiltækum gögnum og ættarupplýsingum sem vega allan skyldleika milli gripanna í gögnunum. BLUP aðferðin getur leiðrétt fyrir áhrifum fastra umhverfisáhrifa sem unnt er að skrá í gögnum og þanning gert dóma frá mismunandi árum, aldursflokkum og kynferði samanburðarhæfa. Á seinustu áratugum hefur BLUP aðferðin skipað sér sess sem kjöraðferð við kynbótamat búfjár um víða veröld. BLUP aðferðinni fyrir einstaklingslíkan og samtímis mati á kynbótagildi 10 tengdra eiginleika sköpulags og hæfileika íslenskra hrossa var fyrst beitt árið 1982. Fyrstu árin voru niðurstöður kynntar hesta og ræktunarmönnum með fundum og fjölrituðum listum niðurstaða og jafnframt birtingu á röð efstu hrossa í tímaritinu Eiðfaxa. Aðferðin var formlega tekin í notkun af Bændasamtökum Íslands (Búnaðarfélaginu) 1986, sem síðan hefur annast og borið ábyrgð af birtingu niðurstaða.
Árið 1992 var gerð umfangsmikil endurnýjun á forrtitunum sem notuð voru til útreikninganna og metnum tengdum mælieiginleikum fjölgað úr 10 í 14. Þá var kynbótamati fyrir hæð á herðar einning bætt við. Góða lýsingu á BLUP aðferðinni og notkun hennar í íslenskri hrossarækt fram til 1992 er að finna í grein Kristins Hugasonar (Kynbótamarkmið og kynbótastarf í hrossarækt. Í ritinu ”Um kynbætur hrossa” . Fræðslurit BÍ nr 9, 1992). Á síðustu árum hefur kynbótamat fyrir prúðleika á fax og tagl, fet og hægt tölt bæts við. Jafnframt varð ljóst að eldri og yngri gögn voru ósamstæð og þörf fyrir nýjar erfðagreiningar og þróun nýs reiknilíkans varð brýn.
Alþjóðlegt kynbótamat fyrir íslensk hross
Árið 2000 var gerður samningur um samstarfsverkefni BÍ og FEIF um uppbyggingu alþjóðlegs gagnagrunns um íslensk hross (WorldFengur – VeraldarFengur). Eitt megiðverkefnið innan VeraldarFengs er að koma á alþjóðlegu kynbótamati sem gerir samanburð á kynbótahrossum, fæddum og sýndum í mismunandi þjóðlöndum, mögulegan. Í fyrstu atrenu er stefnt að sameiginlegu kynbótamati fyrir Norðurlönd sem síðan verður fylgt eftir með kynbótamati sem einnig byggir á FEIF dómum í öðrum löndum.
Á árabilinu 1995-2001 var sameiginlegt kynbótamat reiknað á grundvelli íslenskra, danskra og sænskra gagna og niðurstöður fyrir hross sem staðsett voru í Danmörku og Svíþjóð voru birtar hvor í sínu landi. Þar sem allmikið skorti á samræmingu gagnanna og röng fæðingarnúmer voru of algeng, einkum í sænsku gögnunum var þessu hætt og Danir og Svíar höfðu ekki aðgang að ferskum kynbótaeinkunnum fyrir hross sín árin 2002 og 2003. Þetta var afar bagalengt þar sem ræktendur í þessum löndum höfðu vanist notkun kynbótaeinkunnana og þær voru sýnilega lyftistengur í ræktun þessarra þjóða.
Gagnabanki VeraldarFengs sem er í örri uppbyggingu undir styrkri stjórn Jóns Baldurs Lorange, BÍ, gefur einstakt færi á sköpun virks alþjóðlegs kynbótamats fyrir íslensk hross. Árið 2003 fengu Ágúst Sigurðsson og undirritaður það verkefni í hendur að þróa slíkt kynbótamat. Verkefninu er ekki lokið en þýðingarmiklum áfanga er þó náð með Norræna kynbótamatinu sem nú er aðgengilegt á netinu gegnum VeraldarFeng. Verkefnið hefur falið í sér umfangsmiklar tölfræðigreiningar á ættarskrám og gögnum um kynbótadóma frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Niðurstöður sýna að ættartengingar eru mjög góðar milli landanna og skyldleiki hrossa er nánast sá sami milli sem innan landa. Orsökin er náttúrulega hið öra flæði erfðaefnis frá Íslandi. Mismunur á dómum milli Íslands og hinna Norðurlandanna er óverulegur enda hafa íslenskir dómarar oftast verið með í dómnefndum. Hins vegar kom í ljós að breytileiki og arfgengi dæmdra eiginleika breyttist verulega kringum 1990, svo að eðlilegast er að skilgreina sömu eiginleika sem tvo mismunandi eiginleika eftir því hvort dómur átti sér stað fyrir eða eftir 1990. Bæði arfgengi og dreifni flestra eiginleikanna jókst að mun eftir 1990. Vegna þessa fá eldri dómar nú minna vægi í kynbótamatinu en áður var. Töflur með öllum erfðastuðlum (arfgengi, dreifni, svipfarsfylgni og erfðafylgni) verða birtar á VeraldarFengi (www.worldfengur.com). Þessi fjölgun eiginleikanna sem nú eru innifaldir í kynbótamatinu felur einnig í sér mun flóknara reiknilíkan sem nauðsynlegt var að finna hugvitsama lausn á.
Reiknilíkanið má nokkuð einfaldað fyrir sérhvern eiginleika skrifa sem:
dómseinkunn = föst hrif dómslands og sýningarárs + föst hrif kynferðis og aldursflokks +
slembidreifð kynbótagildi gripanna + slembidreifð umhverfisáhrif (sem ekki er hægt að leiðrétta
fyrir)
Allar dómseinkunnir eru frá þeim dómi er hrossið náði hæstri aðaleinkunn samkvæmt núverandi vægisstuðlum við kynbótadóma. Fyrir árin 1961 – 1989 eru notaðar dómseinkunnir 14 tengdra eiginleika, en fyrir árin 1990 – 2005 eru dómseinkunnirnar 13 (vilja og geðslagi slegið saman í eina einkunn). Fylgnistuðlar milli sömu eiginleika beggja tímabilana eru notaðir í útreikningunum og því er um að ræða samtals 27 innbyrðis tengda eiginleika. Þar að auki eru kynbótamat reiknað fyrir 4 staka eiginleika (hæð á herðar, prúðleika, fet og hægt tölt). Þær einkunnir nýja kynbótamatsins sem eru birtar í VeraldarFengi eru mat á eðlisfari (kynbótagildi) hrossanna fyrir eiginleikunum eins og þeir eru skilgreindir eftir 1990. Þetta gildir einnig fyrir hross með eldri dóma. Gegnum erfðafylgnina næst jafnframt mat á eðlisfari þeirra í nýju eiginleikunum.
Alls voru 190,089 hross í gögnunum árið 2005. Þar af voru 25,327 hross með dóma sem skiptust þannig milli landa; Ísland 20,196, Svíþjóð 2,108, Danmörk 1,678, Noregur 488, Þýskaland 466, Finnland 137, Holland 99, Bandaríkin 57, Austurríki 52, Bretland 24 og Sviss 23 hross. Íslenskir dómar eru teknir með frá 1961, danskir dómar frá 1976, sænskir dómar frá 1982, norskir dómar frá 1994 og finnskir dómar frá 1997. Dómar frá hinum nýju löndunum eru frá og með 2001.
Áður voru einkunnir kynbótamatsins kvarðaðar þannig að meðaltal allra hrossa sem dæmd hafa verið frá upphafi var sett 100 og 10 stig í dreifni einkunna samsvaraði 1 staðalfráviki í dreifni einkunna. Vegna erfðaframfara drógu eldri hrossin niður meðaltalið svo að raunverulegt stofnmeðaltal núlifandi hrossa var komið langt yfir 100. Með öðrum orðum áttum við við skæða verðbólgu að stríða og gengisfelling var eina raunhæfa lausnin. Því var róttæk breyting gerð á kvörðun kynbótamatsins í fyrra (2004). Í nýja kynbótamatinu er ákveðið að meðaltal hrossa í útreikningunum með dóm frá Íslandi síðustu 15 árin verði skorðað sem 100 og jafnframt að 10 stig í dreifni einkunna samsvari 1 staðalfráviki eðlisfars hvers eiginleika. Í fyrra var viðmiðunarhópurinn dæmdur 1990 – 2004. Þetta flyst fram um eitt ár í senn þanning að í ár er viðmiðunarhópurinn hross dæmd 1991 – 2005 og næsta ár verður viðmiðunarhópur 1992-2006 o. s. frv. Dreifni kynbótamatsins hefur aðeins dregist saman í nýja matinu, en þar munar ekki ýkja miklu.
Hvaða upplýsingar varðandi kynbótamatið eru birtar
Á VeraldarFengi eru eftirtaldar upplýsingar um kynbótamnatið:
Hæð á herðar (BLUP í sm sem frávik frá stofnmeðaltali)
Höfuð (BLUP einkunn)
Háls/herðar/bógar (BLUP einkunn)
Bak/lend (BLUP einkunn)
Samræmi (BLUP einkunn)
Fótagerð (BLUP einkunn)
Réttleiki (BLUP einkunn)
Hófar (BLUP einkunn)
Prúðleiki (BLUP einkunn)
Tölt (BLUP einkunn)
Hægt tölt (BLUP einkunn)
Brokk (BLUP einkunn)
Skeið (BLUP einkunn)
Stökk (BLUP einkunn)
Vilji og geðslag (BLUP einkunn)
Fegurð í reið (BLUP einkunn)
Fet (BLUP einkunn)
Sköpulag
Hæfileikar
Aðaleinkunn
Dómsland (IS, DK, o.s. frv.)
Skráðir foreldrar (2, 1 eða 0)
Fjöldi skráðra afkvæma þegar kynbótamatið var reiknað
Fjöldi afkvæma með fullnaðardóm
Fjöldi afkvæma með mál á hæð á herðar
Fjöldi afkvæma með prúðleikaeinkunn
Fjöldi afkvæma með einkunn fyrir hægt tölt
Fjöldi afkvæma með einkunn fyrir fet
Öruggi matsins (fylgni milli metins og sanns kynbótagildis í %)
Staðalskekkja mats
Skyldleikaræktarstuðull í %
Enn er ekki lokið við gerð nýs forrits til að reikna út afkvæmafrávik aðaleinkunnar fyrir hross með afkvæmi í gögnum.
Nóvember 2005,
Þorvaldur Árnason